Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Innan við fimmtungur les Moggann

16.04.2021 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Innan við fimmtungur landsmanna les Morgunblaðið og innan við þriðjungur Fréttablaðið, samkvæmt nýrri lestrarkönnun Gallups. Morgunblaðið mælist með 19,9 prósenta lestur og er það í fyrsta skipti sem blaðið nær ekki tuttugu prósenta lestri, þótt litlu muni. Fréttablaðið mælist með 32,1 prósenta lestur og er því þriðja mánuðinn í röð lesið af innan við þriðjungi svarenda.

Innan við þrjú ár eru síðan lestur Morgunblaðsins fór í fyrsta sinn undir 25 prósent. Um svipað leyti fór lestur Fréttablaðsins undir 40 prósent í fyrsta sinn frá því á upphafsmánuðum blaðsins 2001. Til samanburðar má nefna, að áður en netmiðlar tóku undir sig sífellt stærri hluta af fjölmiðlanotkun landsmanna og síðar samfélagsmiðlar, las stærstur hluti landsmanna blöðin. Þegar Fréttablaðið tók fram úr Morgunblaðinu í lestri í mars 2003 lásu 62 prósent Fréttablaðið og 52 prósent Morgunblaðið. Þá var lestur DV kominn í 22 prósent.

Lestur fjögurra blaða er kannaður í lestrarkönnun Gallup. 4,3 prósent lásu Viðskiptablaðið og 3,5 prósent DV í síðustu mælingu áður en útgáfu þess blaðs var hætt, í það minnsta tímabundið. Hafði lestur DV aldrei mælst minni frá því það varð til við sameiningu Dagblaðsins og Vísis árið 1981.

Mbl.is og Vísir tróna á toppnum yfir netmiðla í nýjustu lestrarkönnun netmiðla með 236 þúsund meðalnotendur Mbl.is og 231 þúsund meðalnotendur Vísis. Því næst koma DV með 125 þúsund meðalnotendur og RÚV með 124 þúsund meðalnotendur. Vefur Fréttablaðsins er með 74 þúsund meðalnotendur, Mannlíf með 41 þúsund og Viðskiptablaðið með 14 þúsund.

RÚV hafði 69,3 prósenta hlutdeild í sjónvarpsáhorfi vikuna 5. til 11. apríl, samkvæmt áhorfskönnun Gallup, Stöð 2 13,9 prósent og RÚV 2 11,6 prósent. 3,5 prósent horfðu á Stöð 2 sport. Sjónvarp Símans er ekki í könnuninni.