Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Icelandair tekur eina MAX véla sinna úr notkun

16.04.2021 - 16:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Icelandair hefur tekið eina af Boeing 737 MAX farþegaþotum sínum úr rekstri tímabundið. Það er gert í framhaldi af því að nokkrum tugum flugvéla sömu tegundar var lagt í síðustu viku meðan hugsanlegur galli í rafkerfi sætir rannsókn. Í fyrstu var talið að sú ráðstöfun hefði engin áhrif á starfsemi Icelandair. Nú er hins vegar komið í ljós að sambærilegt atriði á við um eina af þotum Icelandair og verður hún því ekki notuð í flugi félagsins á næstunni.

Boeing flugvélaframleiðandinn hvatti sextán flugfélög í síðustu viku til að leggja ákveðnum Boeing 737 MAX flugvélum sínum tímabundið. Það var gert vegna rannsóknar flugfélagsins og bandarísku flugmálastofnunarinnar á hugsanlegum galla í rafkerfi. Sá galli tengist ekki MCAS hugbúnaðarkerfinu sem átti þátt í því að tvær Boeing 737 MAX þotur hröpuðu. Alls fórust 346 með þeim tveimur flugvélum. 

Í fréttatilkynningu frá Icelandair segir að eftir nánari greiningu Boeing vegna rafkerfisrannsóknarinnar hafi Icelandair verið tilkynnt að sambærilegt mál hafi áhrif á eina 737 MAX vél félagsins. Því hafi flugfélagið tekið þotuna úr rekstri meðan skoðun fer fram og úrbætur eru gerðar.

Boeing 737 MAX farþegaþotum var lagt um allan heim eftir flugslysin tvö. Vélar Icelandair voru teknar í notkun á ný í byrjun síðasta mánaðar.