Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraun tekið að renna úr Geldingadölum í austur

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Reynir Freyr Pétu - RÚV
Hraun er tekið að renna úr Geldingadölum í austur í átt að Meradölum. Ef það rennur alla leið hefur það áhrif á aðgengi fólks að gígunum. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur staðfesti þetta nú á fjórða tímanum.

„Það nýjasta sem er að gerast er að hraunið er búið að koma sér yfir haftið sem er austan við Geldingadalina og komið yfir það og er núna á leiðinni niðrúr í áttina að Meradölum, gæti hugsanlega farið eitthvað suðureftir. Það er ekki alveg ljóst hvert það fer í augnablikinu,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur segir að hraunið renni ekki hratt, eða um einhverja tugi metra á klukkustund. Það fór yfir haftið um hádegisbil í dag. Hann býst ekki við að hraunið fari langt, ef það nær niður í Meradali. Ef það gerist gæti það aftrað för fólks að gosstöðvunum.

„Það hefur veruleg áhrif á það. Það er búið að loka einni leiðinni sem var bæði akstursleið og gönguleið sem var í gegnum þetta skarð í austri, við skarðið í austri. Ef það fer alveg niður í Meradali og nær að sameinast, eða leggjast upp að því hrauni sem er þar fyrir þá náttúrulega lokast alveg aðgengi að gígsvæðinu að austanverðu,“

Sem hefur verið aðalútsýnissvæðið hingað til.

Já það hefur verið mjög vinsælt útsýnisvæði og líka, sem er alvarlegra, aðalaðgengissvæði fyrir björgunarsveitina og vísindamenn,“ segir Þorvaldur. 
 

Á kortinu hér að neðan má sjá þann stað merktan með stórum rauðum punkti þar sem hraun hefur verið að safnast upp og rennur í átt að Meradölum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV