Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hestafólk kallar eftir gagnkvæmri virðingu og skilningi

16.04.2021 - 11:27
Mynd: Úr einkasafni / Úr einkasafni
Ágangur akandi, hjólandi og skíðandi fólks á reiðvegi hefur valdið slysum og fjölda atvika meðal hesta og knapa. Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamanna, áréttar að reiðvegir séu ætlaðir hestum, þeir séu flóttadýr sem geti brugðist harkalega við óvæntum atvikum. Hann kallar eftir gagnkvæmri virðingu í allri umferð.

Guðni, sem var til viðtals í morgunútvarpi Rásar tvö, segir að hestaslys geti verið mjög alvarleg. Hlaupandi fólk, ökutæki, lausir hundar, jafnvel aðrir hestar og annað óvænt geti fælt hesta með ófyrirséðum afleiðingum. „Enginn vill valda meiðslum eða dauða.“ 

Hestar stökkvi til hliðar eða hlaupa þegar hættu steðji að þeim. „Það er hræðileg tilfinning að finna hest hræðast. Maður meiðir sig líka meira við að detta af baki en þegar maður var yngri.“ 

Hann segir að hestamenn kalli fyrst og fremst eftir skilningi annarra og að verið sé að vinna kynningarmyndband ásamt Samgöngustofu um hvernig eigi að hegða sér þegar hestum er mætt.

Gagnkvæmur skilningur og virðing meðal allra í umferðinni eru mikilvæg að sögn Guðna sem bendir á að reiðstígar séu í raun íþróttamannvirki hestafólks. Þau verði að fá að vera í friði fyrir annars konar umferð.

Hann segist skilja að ekki sé hægt að ætlast til að allir vita þetta og því sé mikilvægt að upplýsa. Nú sé sérstök öryggisnefnd landssambandsins að kortleggja málið í samráði við Samgöngustofu og aðra útivistarhópa. Ætlunin sé að koma á útivistarsáttmála sem auka á skilning og virðingu hvert fyrir öðru.

„Við hestamenn þurfum líka að passa okkur á að vera ekki með einhverja frekju.“ 

Reiðvegirnir séu hannaðir og lagðir til þess að henta hófum hesta en önnur farartæki skemmi þau. Þeir séu hvorki hjóla- né göngustígar og enn síður bílastæði og auk þess sérmerktir hringlaga bláu merki með mynd af hesti og knapa.

„Ég rakst á mynd af borgarfulltrúa á Facebook þar sem hann hjólaði glaður um á hestastíg. Það er spurning hvað hefði verið sagt hefði hann verið að hjóla á golfvelli.“

Guðni telur ekki að ágangurinn sé af illum hug heldur átti fólk sig hvorki á hættunni né að umferð þeirra sé ekki heimil. „Við þurfum að átta okkur á til hvers reglurnar eru.“

Hann bendir jafnramt á að fé skorti og því þurfi að taka samtal við hið opinbera, ríki og sveitarfélög. Hann nefndir til dæmis að eitt hringtorg í Mosfellsbæ kosti viðlíka og varið er til reiðstíga á sex árum, eða um 450 milljónir króna.

Því sé kallað eftir meira fé og aðkallandi sé að merking stíga verði markvissari og skýrari. „Alltaf villast hjólamenn inn á reiðstíga og hestar bregðast allskonar við því.“ Í dag eru þetta skilgreind íþróttamannvirki, segir Guðni og ekki megi horfa á þá sem eitthvað sem allir geti notað.

Sumir vegir séu vissulega sameiginlegir útivistarvegir, eða gamlir akvegir, en sérmerktir reiðvegir eru byggðir sérstaklega upp fyrir ríðandi umferð og eingöngu ætlaðir henni.