Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hæstiréttur staðfesti ógildingu dóms yfir Lula

epa09138224 (FILE) - Former Brazilian president Luiz Inacio Lula da Silva speaks about 'Dialogue about inequality with global unions and general public', during a press conference at the Geneva press club, in Geneva, Switzerland, 06 March 2020 (reissued 15 April 2021). Brazil's Federal Supreme Court (STF) on 15 April 2021 upheld the annulment of all the prison sentences handed by a Curitiba court against former president Lula da Silva, who must be tried by federal courts.  EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Hæstiréttur Brasilíu staðfesti í dag ógildingu á dómi frá 2018, þar sem Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi Brasiliuforseti, var sakfelldur fyrir spillingu í embætti. Átta af ellefu dómurum hæstaréttar greiddu atkvæði með því að staðfesta úrskurð dómarans Edsons Fachins frá 8. mars, sem komst að þeirri niðurstöðu að ógilda skyldi dóminn á grundvelli formgalla.

Þar með er ekkert lengur í veginum fyrir því að forsetinn fyrrverandi, sem í daglegu tali er einfaldlega nefndur Lula, bjóði sig fram gegn Jair Bolsonaro, núverandi forseta, þegar gengið verður til kosninga í Brasilíu haustið 2022.

Dæmdur fyrir spillingu í tengslum við ríkisolíufélagið

Lula, sem er sósíalisti og einn af stofnfélögum brasilíska Verkamannaflokksins, naut mikilla vinsælda í forsetatíð sinni 2003 - 2011, enda mikill uppgangur í efnahagslífinu á þeim árum.

Hann var þó langt í frá óumdeildur og 2017 var hann ákærður og dæmdur fyrir að þiggja mútur frá fyrirtækjum sem sóttust eftir samningum við ríkisolíufélagið Petrobras, en það fyrirtæki er mikil uppspretta spillingarmála í Brasilíu. Hann var svo fangelsaður ári síðar, eftir árangurslausa áfrýjun, og eyddi 580 dögum á bak við lás og slá. 

Segir málatilbúnaðinn pólitíska aðför að sér

Dómurinn kom í veg fyrir að hann gæti boðið sig fram til forseta í kosningunum 2018, sem öfgahægrimaðurinn Bolsonaro vann. Lula hefur jafnan haldið fram sakleysi sínu og fullyrt að málatilbúnaðurinn allur hafi verið pólitísk aðför að honum, með dómarann Sergio Moro í fylkingarbrjósti.

Von er á úrskurði fullskipaðs hæstaréttar innan skamms um það, hvort Moro, sem síðar varð dómsmálaráðherra í stjórn Bolsonaros um hríð, hafi gerst sekur um hlutdrægni þegar hann sakfelldi Lula. Málflutningur í því máli hefst fyrir hæstarétti á fimmtudag í næstu viku. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV