Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fornleifar fundust í Hrunamannahreppi

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Fornminjar hafa fundist við bæinn Gröf í Hrunamannahreppi. Talið er að þær séu frá landnámsöld. Gera þarf breytingar á uppbyggingu íbúðahverfis vegna þessa.

Sunnlenska.is greinir frá. Framkvæmdir hófust í febrúar við nýtt hverfi á Flúðum í landi Grafar. Þar er gert ráð fyrir allt að 60 lóðum, bæði til íbúðar og þjónustu. Frá því að framkvæmdir hófust hafa fulltrúar Fornleifastofnunar verið til taks. Lilja Björk Pálsdóttir fornleifafræðingur er ein þeirra. 

„Nú er komið svo að við erum við bæjarhólinn og þá sjáum við glugga inn í hann. Við erum með stórt snið, 20 metra stórt snið sem sýnir þróun byggðarinnra hérna á staðnum frá landnámstíma eða stuttu þar eftir og allt til 20. aldar þegar síðasti bærinn var rifinn hérna. Við erum með torfhús sem er með landnámsgjóskunni í, það er frá fyrstu öldum. Svo erum við með heilmiklar gryfjur sem eru fullar af viðarkolum, það er spurning hvort að hér hafi verið einhverskonar járnvinnsla í gangi,“ segir Lilja.

Hún segir það koma á óvart hversu heillegar minjarnar eru því þarna hafi í tímans rás verið nokkrar framkvæmdir. Í Gröf var þingstaður fyrr á öldum og útkirkja frá Skálholti. Um árið 1950 voru grafnar upp átta beinagrindur þar sem talið er að bænahús og kirkjugarður hafi staðið við Gröf. Landnámslagið er öskulag úr Bárðabungugosi um árið 870 sem lagðist yfir stóran hluta Suðurlands og hálendisins. Gosið teigði anga sína yfir í Torfajöklulssvæðið og Veiðivötn.

Halldóra Hjörleifsdóttir oddviti Hrunamannahrepps segir að vegna fundarins þurfi að hliðra innkeyrslu inn á svæðið lítillega en hann hafi ekki áhrif á lóðir. Frekari rannsóknir leiði í ljós hvort þar leynast frekari minjar.

Í frétt Sunnlenska kemur fram að samkvæmt Landnámu hafi bræðurnir Bröndólfur og Már Naddoddssynir numið land í Hrunamannahreppi. Bröndólfur bjó á Berghyl en Már á Másstöðum. Alla tíð síðan hefur verið búið á Berghyl en staðsetning Másstaða er ekki kunn. Hvort Másstaðir séu nú fundnir er ekki hægt að segja, en eftir því sem sunnlenska.is kemst næst voru fyrstu heimildir um búsetu í Gröf frá 10. öld en þar bjuggu Þorsteinn goði Þorkelsson lögsögumaður (f. 940) og sonur hans Bjarni spaki Þorsteinsson (f. 960). Langafi Þorsteins goða var Ingólfur Arnarson.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV