Flóðbylgja COVID-19 smita á Indlandi

16.04.2021 - 12:50
Erlent · Asía · COVID-19 · Indland
epa09139252 A health worker takes a nasal swab sample of a person to test for COVID-19 at Chhatrapati Shivaji Maharaj Terminus railway station in Mumbai, India, 16 April 2021. A curfew is announced in Mumbai, and many other states as India recorded its highest daily spike of COVID-19 cases on 14 April with around 200,000 new infections in 24 hours.  EPA-EFE/DIVYAKANT SOLANKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nærri 220 þúsund greindust með COVID-19 á Indlandi síðasta sólarhringinn. Yfir þúsund létust úr COVID-19 í gær og víða um land eru spítalar að fyllast.

Í fyrri bylgju COVID-19 á Indlandi greindust mest tæplega 100 þúsund smit á dag. Nú er önnur bylgjan skollin á af fullum þunga og hefur henni verið líkt við flóðbylgju. Í áttunda sinn á aðeins níu dögum hefur mesti fjöldi smita greinst. Síðasta sólarhringinn greindust ríflega 217 þúsund og fleiri en þúsund létust. Í löngu innslagi BBC frá Indlandi segir Vikas Pandey fréttmaður að litið hafi verið svo á að þetta væri búið þegar tökum var náð á fyrri bylgjunni. 

Næturklúbbar, líkamsræktarstöðvar og flest öll starfsemi hafi farið á fullt á ný. Þá hafi stórir og fjölmennir viðburðir farið fram um land allt í tengslum við tvær stórar hátíðir og kosningar. Og allir þessir viðburðir áttu eitt sameignlegt, segir Pandey. Engar sóttvarnareglur virtar. Engin fjarlægðarmörk og enginn með grímu.

Spítalar að fyllast víða um land

Í byrjun mars tók smitum að fjölga og síðustu daga og vikur á ógnarhraða. Flest þekkjum við afleiðingarnar. Spítalar fyllast, heilbrigðiskerfið örmagnast og dauðsföllum fjölgar. Saswati Sinha, læknir og sérfræðingur á gjörgæsludeild, segir að á hverjum einasta degi fjölgi þeim sem þurfa innlögn á spítala gríðarlega, mun meira en í síðustu bylgju. Á Indlandi búa um 1,4 milljarðar manna og þar hafa nær 14,3 milljónir greinst með COVID-19. En það segir ekki alla söguna því tiltölulega fá sýni eru tekin á Indlandi í samanburði við mörg önnur ríki. Sem dæmi hafa Bandaríkjamenn tekið 1,2 milljónir sýna á hverja milljón íbúa á meðan Indverjar taka rétt um 189 þúsund sýni á hverja milljón.