Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björtustu vonum íslenskrar tónlistar komið á óvart

Mynd: Menningin / RÚV

Björtustu vonum íslenskrar tónlistar komið á óvart

16.04.2021 - 12:56

Höfundar

Tónlistarfólkið sem bar sigur úr býtum sem björtustu vonirnar á Íslensku tónlistarverðlaununum fékk forskot á sæluna en verðlaunahátíðin fer fram á laugardag. Gugusar, Steiney Sigurðardóttir og Laufey Lin hljóta verðlaunin.

Íslenskt tónlistarlíf blómstrar sem aldrei fyrr. Það er bæði kraftur í útgáfu og almennu andrúmslofti og því ekki úr vegi að geiranum sé fagnað sérstaklega, sem verður gert þegar Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent í Hörpu og send út á RÚV á laugardag, 17. apríl.

Tónlistarárið var að mörgu leyti blómlegt þrátt fyrir augljósa erfiðleika vegna heimsfaraldursins. Innsendingar til verðlaunanna hafa aldrei verið jafn margar og segir Kristján Freyr Halldórsson, sem situr í framkvæmdastjórn verðlaunanna, að útgáfan hafi verið hreint út sagt „sprúðlandi frábær“ og sköpunin í miklum blóma.

Forskot var tekið á sæluna í Menningunni á RÚV, þar sem tónlistarfólk sem útnefnt var sem björtustu vonirnar fékk verðlaunin afhent. 

Í flokknum bjartasta vonin í poppi, rokki, rappi, hipphoppi og raftónlist voru tilnefnd fyrir hönd íslensku tónlistarverðlaunanna og Rásar 2 Kristín Sesselja, Inspector Spacetime, Skoffín, Gugusar og Salóme Katrín. Gugusar bar þar sigur úr býtum og kom það henni mjög á óvart þegar bankað var upp á hjá henni. 

„Þetta er bara algjör draumur, að fá svona verðlaun og bara að vera tilnefnd og vera partur af þessu, það er ótrúlega gaman.“

Gugusar gaf út fyrstu plötu sína í fyrra. Hún nefnist Listen to this twice. Hún flytur tónlistina á plötunni, semur og annast upptöku og hefur starfað með nokkrum þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar. Lög Gugusar hafa ratað inn á vinsældalista og hún nýtur mikillar velgengni á Spotify.

„Mér datt ekki í hug að þetta myndi einhvern tíma gerast, þegar ég byrjaði að semja tónlist. Ég gerði plötuna sem ég er búin að gefa út þegar ég var fimmtán ára og ég var að búast við að mamma og pabbi myndu kannski hlusta, ef þau myndu nenna því, þannig að þetta er ótrúlegt.“

Næst kom röðin að björtustu voninni í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Þar var Steiney Sigurðardóttir valin. Steiney hefur, þrátt fyrir ungan aldur, skipað sér meðal fremstu sellóleikara þjóðarinnar. Auk þess að vera staðgengill leiðara í sellódeild Sinfoníuhljómsveitar Íslands, hefur hún spilað með Kammersveit Reykjavíkur, hljómsveitinni Elju og Dúói Eddu.

„Mig grunaði þetta ekki, en þetta kemur skemmtilega á óvart,“ sagði hún þegar hún fékk verðlaunagripinn óvænt afhentan við Perluna í Öskjuhlíð. „Það er bara gaman að sjá að íslenska þjóðin hefur tekið eftir manni. Það er ótrúlega mikið af flottum íslenskum tónlistarmönnum, þannig að það er algjör heiður að fá þetta.“

Bjartasta vonin í flokki djass- og blústónlistar, Laufey Lin, var stödd erlendis, svo hún var boðuð á óvæntan skipulagsfund á Zoom. „Ég var að vakna, ég var alls ekkert að búast við þessu! Ég er að fara í tíma eftir nokkrar mínútur,“ sagði hún hissa.

Laufey Lin hefur á skömmum tíma náð eftirtektarverðum árangri í tónlistarútgáfu. Hún lauk námi við Berklee-tónlistarskólann í Boston þar sem hún var á forsetalista. Hún hefur gefið út smáskífu, EP-plötur og fjölda laga sem hafa náð eyrum milljóna hlustenda og áhorfenda á Youtube. Og það er nóg um að vera hjá henni.

„Ég er stödd í New York núna. Ég er að fara að gefa út litla EP-plötu í apríl en ég er að flytja til LA í sumar, eins og gerist, og er vonandi að fara að taka upp meiri tónlist. Ég er með BBC-þátt sem ég var að taka þátt í, hér í New York, sem kemur út á laugardaginn. Það eru tólf þættir og það er verið að spila mína tónlist og líka einhverja aðra tónlist sem ég setti saman, sem heitir Happy Harmonies.“

Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent í Hörpu á laugardag. Frá þeim verður sýnt í beinni útsendingu á RÚV. Á hátíðinni koma fram Bríet, HAM, Ingibjörg Turchi og Álfheiður Erla.

Tengdar fréttir

Tónlist

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna kynntar