Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„ASÍ styður Neytendasamtökin í sinni baráttu“

16.04.2021 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að ASÍ styðji Neytendasamtökin í baráttu þeirra við BPO Innheimtu ehf. Fjármálaeftirlitið þurfi að einbeita sér að slíkum fyrirtækjum.

Fyrirtækið komst í fréttirnar í vikunni eftir að það keypti kröfusöfn smálalafyrirtækja og hóf að senda út greiðsluseðla í heimabanka fólks með eindaga sama dag og kröfurnar voru sendar út.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna sagði í fréttum RÚV í gær að dæmi væru um að fólk væri rukkað um skuld sem þegar væri búið að greiða. Þá væri að mati samtakanna verið að leggja á ólöglega vexti og annan kostnað sem búið sé að dæma eða úrskurða ólöglega.

Í föstudagspistli sínum minnir Drífa á ólögmæti slíkra lána og segir löngu kominn tíma til að „okurlánarar hætti að níðast á viðkvæmu og fátæku fólki“. Þá sé skýr krafa að fjármálaeftirlitið fari að einbeita sér að „glæpsamlegum athöfnum þessara fyrirtækja. ASÍ styður Neytendasamtökin í sinni baráttu.“