Áhugi Íslendinga á eldgosinu ekkert að minnka

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson - Arnar Páll Hauksson
Þrátt fyrir að eldgosið á Reykjanesskaga hafi nú staðið yfir í mánuð, þá dregur ekkert úr áhuga landsmanna á eldsumbrotunum nema síður sé. Helmingur þeirra sem enn hefur ekki gert sér ferð upp að eldstöðvunum hyggst gera það.

Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup hefur fjórðungur landsmanna nú þegar gert sér ferð að gosstöðvunum á Reykjanesskaga. Það er umtalverð fjölgun frá fyrri mælingu sem gerð var fyrstu vikuna í apríl, en þá höfðu 16 prósent séð eldgosið. Þrjú prósent aðspurðra hafa farið í áttina að gosinu og séð bjarmann að eldgosinu og 19 prósent hafa séð bjarmann að gosinu án þess að hafa gert sér sérstaklega far um að sjá það. Rétt rúmum helmingur, eða um 53 prósent, hafa ekki séð gosið með eigin augum.

En það dregur ekkert úr áhuga landsmanna á gosinu því rétt rúmur helmingur þeirra sem hafa ekki gert sér ferð upp að gosstöðvunum hefur í hyggju að gera það. Það er hærra hlutfall en nokkru sinni áður í nokkurri annarri mælingu. Einungis þriðjungur þeirra ætlar ekki að fara og sjá eldgosið.

Samkvæmt könnuninni fylgjast 93 prósent landsmanna með framvindu gossins í fjölmiðlum. Langflestir, eða 75 prósent, fylgjast með því á netinu. 63 prósent nota sjónvarp, um helmingur vef Veðurstofunnar og 38 prósent útvarp.  

Magnús Geir Eyjólfsson