Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vísindaráð telur engin merki um goslok á næstunni

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Með opnun nýrra gíga undanfarna daga hefur hraunrennsli í Geldingadölum tekið nokkrum breytingum og er viðbúið að það renni í gegnum skarð í suðaustanverðum dalnum á næstunni. Ekki er útlit fyrir að gosinu ljúki í bráð. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi vísindaráðs almannavarna í dag.

Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar á aflögun, framgang gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þá mengun sem fylgir eldgosinu.

„Áfram er mesta skjálftavirkni á Reykjanesskaga norðarlega í kvikuganginum, við Litla-Hrút og að Keili.  Lítil aflögun mælist á þessu svæði bæði á GPS tækjum og í gervitunglagögnum,“ segir í ályktun fundarins. 

Stærstur hluti hraunsin hefur runnið ofan í Geldingadali frá því að gos hófst þann 19. mars í hálfgerða skál eða baðkar eins og vísindamenn hafa komist að orði. Eftir því sem meira hraun verður til styttist í að það finni sér nýjan farveg suðaustur á bóginn í Meradali og sameinist þar hrauni sem rennur úr gíg sem opnaðist á annan dag páska.

„Síðustu vikuna hafa opnast nýir gígar á sprungunni á milli Geldingadala og þess gígs sem opnaðist annan í páskum.  Þetta hefur haft áhrif á hvert hraun rennur og bunkast nú upp hraun í suðaustur hluta Geldingadala og má búast við að það renni úr skarðinu sem þar er á næstunni.  Rætt var um hvort hægt væri að sjá fyrir þegar nýjar opnanir verða á sprungunni innan eldgosasvæðisins, en merkin eru afar lítil og erfitt að mæla þau með þeim hætti að hægt verði að vara fyrir með mikilli vissu og fyrirvara,“ segir í ályktun ráðsins.

Engin merki eru um að gosinu sé að ljúka þó að einhverjar sveiflur séu í hraunrennslinu.

„Hraunflæði hefur verið nokkuð stöðugt frá upphafi goss, þó hægt sé að greina litlar sveiflur inn á milli.  Ekkert bendir til þess að það sjái fyrir endann á gosinu.  Gosmengun er mest við gosstöðvarnar og dvínar hratt með aukinni fjarlægð frá þeim,“ segir í ályktuninni.

Lokað hefur verið upp að gosstöðvunum í dag og verður það svo til morguns en stefnt er að því að hleypa fólki þangað upp á morgun. 

Samband við vefmyndavélar RÚV við gosstöðvarnar rofnaði aðfaranótt fimmtudags. Vegna veðurs hefur ekki tekist að gera við vefmyndavélarnar og útséð að viðgerð takist fyrr en á morgun, föstudag.

Talið er að veðrið við gosstöðvarnar eigi sök í því að samband við myndavélarnar rofnaði. Þar er ekkert fjallaferðaveður eins og stendur; bálhvasst og grenjandi rigning.

Þegar veður leyfir verður viðgerðarflokkur sendur af stað til að koma myndunum af gosinu heim í stofu til fólks. Um leið verður þess freistað að færa aðra vefmyndavélina svo það fáist betra útsýni yfir alla nýju gígana sem hafa opnast síðustu daga og vikur.