Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Úrvalsvísitalan hækkað um þrettán prósent á 3 mánuðum

15.04.2021 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um þrettán prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins og hefur nú hækkað um 82 prósent frá því að hún náði lággildi í mars á síðasta ári. „Helsta ástæðan eru þessar miklu vaxtalækkanir sem hafa verið á mörkuðum. Skammtímavextir eru mjög lágir sem þýðir að verðmæti hlutabréfa aukast. Það er sóst eftir frekari ávöxtun og leitað í hlutabréf,“ segir Sveinn Þórarinsson, sem stýrir hlutabréfagreiningum hjá hagfræðideild Landsbankans.

„Sparnaður hérna heima hefur aukist sem er í takti við lækkandi vexti. Við erum að eyða minna, innlán hafa verið að aukast og það hefur verið streymi úr innlánum í hlutabréfasjóði,“ segir hann. „Þetta lítur kannski furðulega út. Miklar hækkanir þegar það er sögulega hátt atvinnuleysi hérna heima og vírusinn ekkert að fara en það eru bara aðrir kraftar sem hafa verkað meira á móti.“

Sveinn segir að hækkanirnar á þessu ári megi að ákveðnu leyti rekja til nóvembermánaðar þegar jákvæðar fréttir bárust um bóluefni gegn kórónuveirunni. Þá hafi rekstur margra fyrirtækja gengið vel í faraldrinum. „Miðað við það hvernig félög eru í kauphöllinni á Íslandi eru kannski fá sem eru beintengd COVID,“ segir hann.

Verð hlutabréfa í trygginga- og fjármálafyrirtækjum hefur hækkað mest frá ársbyrjun samkvæmt riti fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. Arion banki hækkaði um 32 prósent á fyrsta ársfjórðungi. Þá hækkaði verð bréfa í Marel um tæp 11 prósent og skýrir sú hækkun að miklu leyti þróun úrvalsvísitölunnar þar sem markaðsvirði Marels er um 52 prósent af markaðsvirði félaga í úrvalsvísitölunni.

​​​​Félög í atvinnugreinum sem eru næmari fyrir horfum í ferðaþjónustu, eins og Icelandair og fasteignafélögin, hafa frekar fundið fyrir neikvæðum áhrifum faraldursins. „Þrátt fyrir að ferðamannaiðnaðurinn hafi verið ofboðslega stór fórum við líka mikið til útlanda. Áhrif þess að missa af erlendum ferðamönnum vógum við svolítið upp með því að fara ekki sjálf til útlanda. Það hefur talsverð áhrif á hækkanir á Högum og Festi og slíkum félögum,“ segir Sveinn.

Viðskipti með hlutabréf hafa aukist á undanförnum mánuðum. Á fyrstu þremur mánuðum ársins nam veltan 264 milljörðum króna og hafði aukist um 22 prósent á milli ára. Þá hefur almenningur tekið meiri þátt í viðskiptunum en áður.

„Almenningur tók fyrst og fremst mjög mikinn þátt í útboði Icelandair. Við höfum séð einhverja smá aukningu í beinum kaupum en helstu áhrifin eru í flæði inn í hlutabréfasjóði. Sérstaklega hefur verið talsvert flæði og áhugi einstaklinga frá lok árs,“ segir Sveinn.

Aðspurður hvort hann telji þessa þróun halda áfram næstu mánuðina segir hann: „Kraftarnir eru ennþá til staðar en við erum ekki að fara að sjá aftur einhverja 80 prósenta hækkun og það verður ekki 10 prósenta hækkun á hverjum fjórðungi út í eilífðina en heilt yfir þarf að vera einhver stór atburður til að markaðurinn taki dýfu.“