Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Umboðsmanni mannréttinda í Póllandi gert að hætta

15.04.2021 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: ENNHRI
Stjórnlagadómstóllinn í Póllandi hefur úrskurðað að Adam Bodnar, umboðsmaður mannréttindamála í Póllandi, skuli láta af embætti. Framkvæmdastjórn ESB segist hafa áhyggjur af málinu og fylgjast grannt með.

Adam Bodnar, umboðsmaður mannréttindamála, hefur verið þyrnir í augum stjórnvalda í Póllandi en hann var skipaður árið 2015 áður en hægri flokkurinn Lög og réttlæti komst til valda. Hann var skipaður til fimm ára og rann sá tími út í september í fyrra en þar sem pólska þingið hefur ekki komið sér saman um nýjan umboðsmann hefur Bodnar sinnt starfinu áfram. Tveir þingmenn Laga og réttlætis leituðu til stjórnlagadómstólsins sem í dag úrskurðaði að það stæðist ekki stjórnarskrá að Bodnar sæti áfram í embætti. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur viðrað áhyggjur af þessu máli og segist fylgjast grannt með áframhaldinu. Embætti umboðsmanns mannréttinda var sett á fót eftir fall kommúnismans og á hann að vera ópólitískur.

Stjórnlagadómstólinn hefur verið umdeildur bæði innan og utan Póllands frá því að Lög og réttlæti skipaði fimm dómara árið 2016, en lögum samkvæmt átti aðeins að skipa tvo.