Tók u-beygju úr Bændablaðinu í kjólahönnun

Mynd: Eygló Gunnarsdóttir / Áskell Þórisson

Tók u-beygju úr Bændablaðinu í kjólahönnun

15.04.2021 - 11:40

Höfundar

Fyrrverandi ritstjóri Bændablaðsins, Áskell Þórisson, hefur undanfarið unnið að nýju og spennandi verkefni. Í dag eiga kjólar hug hans allan - öllu heldur mynstur kjólanna. Áskell hefur verið iðinn við að taka ljósmyndir og nú hafa margar myndir hans ratað á kjóla.

„Þeir sem mig þekkja eiga erfitt með að trúa þessu, en þetta er engu að síður satt,“ segir Áskell, fyrrum ritstjóri og upplýsingafulltrúi, í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. „Þetta er nú eiginlega u-beygja. Það er alveg hægt að fullyrða það að þetta er dálítið langt frá því sem ég hafði nokkurn tímann reiknað með að gæti gerst.“

Hliðarsporið varð til út frá ljósmyndum sem Áskell hefur tekið að undanförnu og sjá má vef sem hann heldur úti. „Ég hef einbeitt mér að macro-myndum, svona nærmyndum, sem ég hef unnið allmikið í Photoshop til þess að draga fram eitthvað  sem ég vil sjá. Einhvern tímann sat ég fyrir framan skjáinn og kveinaði yfir því að ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera við þessar myndir. Þá sagði dóttir mín við mig: Hvernig væri að sjá þetta á kjólum? Þar með fæddist kjólaverkefnið. Hún er með mér í þessum bransa, hún Laufey Dóra, og við erum komin á kaf í tískuna.“

Kjólarnir eru umhverfisvænir, segir Áskell, og efnin í þeim gerð úr endurunnum plastflöskum. „Það er með ólíkindum hvað er hægt að gera úr plastflöskum, ég hefði ekki trúað því að óreyndu að þær gætu orðið að svona flottum efnum.“

Auk feðginanna Áskels og Laufeyjar Dóru koma Sunna Dís Hjörleifsdóttir, sem hannar sniðin og Eygló Gunnarsdóttir, kennari á Akranesi sem saumar kjólana, að verkefninu.

„Það er svolítið gaman að þessu, ég játa það hreinskilnislega,“ segir Áskell að lokum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Íslenskar konur keyptu yfir 200 þúsund Hagkaupssloppa

Menningarefni

Fengu styrk og blái kjóllinn fer til Húsavíkur

Tækni og vísindi

Kjólar sem skipta um lit og síkka eða styttast