Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tjá sig ekki fyrr en trúnaði verður aflétt

Mynd með færslu
 Mynd: Marvin Mutz - Wiki Commons CC-BY-SA
Hvorki samgönguráðherra né forstjóri Samgöngustofu segjast geta tjáð sig efnislega um skýrslu ríkisendurskoðunar um fall WOW Air fyrr en trúnaði af skýrslunni hafi verið aflétt. Það verður ekki gert fyrr en á þriðjudaginn.

Samgöngustofa sætir harðri gagnrýni í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fall WOW Air. Samgöngustofa er sögð hafa gefið samgönguráðuneytinu misvísandi upplýsingar um fjárhagseftirlit með WOW Air, hún hafi ekki aðhafst þrátt fyrir að hafa fengið upplýsingar um slæma stöðu flugfélagsins í maí 2018 og látið viðskiptalega hagsmuni WOW ráða för.

Tjá sig ekki þótt efni skýrslunnar sé á allra vitorði

RÚV og fleiri fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um efni skýrslunnar í gær og hafa gert áfram í dag. Fréttastofa hefur í gær og í dag reynt að fá viðbrögð frá Samgöngustofu, samgönguráðherra og einstaka þingmönnum. Allir segjast tilbúnir að tjá sig um efni skýrslunnar en þeir geti það ekki þar sem enn ríkir trúnaður um efni hennar. Þeim trúnaði verður ekki aflétt fyrr en umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um hana á nefndarfundi á þriðjudaginn. Formaður nefndarinnar, Bergþór Ólason, segir í samtali við fréttastofu að ekki standi til að aflétta trúnaði af skýrslunni fyrr en eftir þann fund.

Samgönguráðherra tók málið upp á þingi í dag. Hann sagði þörf á að breyta verklagsreglum því einstaka þingmenn hefðu tjáð sig um efni skýrslunnar en aðrir gætu það ekki vegna trúnaðar. „Ég get sagt sem ráðherra samgöngumála að ég myndi gjarnan vilja tjá mig um þessa skýrslu því ég hef séð hana á vinnslustigi og ég hef ekki séð endann á henni og það var margt jákvætt sem fjallað var um stjórnsýslu samgönguráðuneytisins.“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að efni skýrslunnar hefði ekki átt að fara framhjá neinum, enda víða fjallað um hana. „Ég bara hvet hæstvirtan ráðherra til að lesa fjölmiðla af því að það er mjög margt greinilega að finna sem hæstvirtur ráðherra ætti að líta á og taka alvarlega.“

Segjast hafa unnið af fagmennskum og heilindum

Samgöngustofa sendi í dag frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Samgöngustofa telur jákvætt að úttekt Ríkisendurskoðunar um fall Wow air sé lokið. Verkefnið hófst í október 2019 og á öllum stigum var lögð áhersla á gott samstarf og aðgengi að nauðsynlegum gögnum.

Flugöryggi er eitt af meginverkefnum Samgöngustofu og þungamiðjan í fjárhagslegu eftirliti stofnunarinnar með flugrekendum. Í þessu tiltekna máli tókst starfsfólk Samgöngustofu á við afar krefjandi verkefni af fagmennsku og heilindum. Það fólst meðal annars í eftirliti og mati á ráðstöfunum í fjárhagslegri endurskipulagningu eins stærsta flugfélags landsins, án þess að flugöryggi væri nokkru sinni stefnt í hættu.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar var send til Samgöngustofu sem trúnaðarmál. Trúnaði verður aflétt og skýrslan birt á vef Ríkisendurskoðunar þegar Alþingi hefur tekið hana til afgreiðslu í viðeigandi þingnefnd. Samgöngustofa mun þá eins og endranær veita greið svör verði eftir þeim leitað.“