Starfsmanni Elkem dæmdar bætur vegna mengunar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag fyrrverandi starfsmanni járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga bætur vegna tjóns sem hann varð fyrir við störf sín í verksmiðjunni. Starfsmaðurinn starfaði sem tappari við ofn í verksmiðjunni.

Starfsmaðurinn höfðaði málið til greiðslu úr starfsábyrgðartryggingu Elkem hjá Sjóvá. Árið 2012 veiktist starfsmaðurinn alvarlega og var lagður inn á Landspítala vegna veikindanna. Hann greindist með bólgusjúkdóm í smáæðum líkamans sem nefnist granulomatosis polyangiitis (GPA), sem einnig er nefndur Wegener‘s granulomatosis (WG). Tveir aðrir stafsmenn veiktust einnig af þessum sjúkdómi. Í kjölfar þess kallaði Elkem ásamt Verkalýðsfélagi Akraness eftir áliti tveggja sérfræðinga í lyflækningum og lungnalækningum á hugsanlegum tengslum mengunar á vinnustaðnum við veikindi starfsmannanna. 

Í  álitsgerð læknanna frá því í desember 2013  er rakið að starfsmaðurinn hafi í  upphafi „róterað“ milli staða í verksmiðjunni, en árið 2008 hafi vinnufyrirkomulagi verið breytt. Frá því ári hafi starfsmaðurinn starfað samfleytt við svokallaðan ofn 1 og síðasta árið hafi hann eingöngu  starfað á jarðhæð við þann  ofn. Fram kemur að orsakir sjúkdómsins  GPA (WG) séu ekki að fullu þekktar en erfðir hafi umtalsverð áhrif. Ýmis lyf séu talin geta aukið hættu á að fá sjúkdóminn og einnig sé talið að sýkingar geti komið við sögu. Því næst  segir: „Þá er vel þekkt að útsetning fyrir kísilryki eykur hættuna á að þróa með sér GPA þó orsakir þess hafi ekki verið að fullu skýrðar.“

Hið síðastnefnda atriði er endurtekið í samandregnu áliti læknanna og því bætt við að þar með sé „vel mögulegt“ að  aðstæður á vinnustað hafi haft áhrif á sjúkdómsmyndun stefnanda. Loks segir í álitsgerðinni að mikilvægt sé að lágmarka magn heilsuspillandi efna sem starfsmenn séu útsettir fyrir. Veikindi mannanna þriggja gefi sérstaklega tilefni til að skoða magn kísilryks í starfsumhverfinu.

Árið 2015 hafnaði Sjóvá bótaskyldu sinni og kærði starfsmaðurinn þá ákvörðun til úrskurðarnefndar vátryggingamála. Hún hafnaði kröfum starfsmannsins. Árið 2017 voru aftur fengnir dómskvaddir matsmenn til að leggja mat á hvort að orsakasamhengi væri á milli starfsmunhverfisins í verksmiðjunni og sjúkdóms starfsmannsins. Þeir áttu að svara spurningum um hvort að loftræstikerfi og persónuhlífar og þau efni sem notuð eru og myndast við framleiðsluna séu líkleg til að valda þeim sjúkdómi sem starfsmaðurinn greindist með og þá hvaða þættir séu sennilegastir í þeim efnum og þá hver sé vanlegur miski og örorka vegna þessa. 

Í matsgerð frá því í desember 2017 draga matsmenn svör sín við spurningunum saman með eftirfarandi hætti:

„Já, útsetning fyrir kristallaðri kísilsýru, kvartsi, í starfsumhverfi matsbeiðanda hjá Elkem er líkleg til að valda sjúkdómi matsbeiðanda Wegeners granulomatosis.  Loftborin útsetning fyrir kristallaðri kísilsýru, kvartsi, sem matsbeiðandi varð fyrir í starfsumhverfi sínu hjá  Elkem er  sennilegasti  orsakavaldur sjúkdómsins Wegeners granulomatosis sem matsbeiðandi er haldinn.Matsmenn  telja  orsakatengsl vera milli Wegeners granulomatosis matsbeiðanda og útsetningu hans fyrir kristallaðri kísilsýru, kvartsi,   í starfsumhverfi  hans  hjá  Elkem,  í  ljósi  þess  að  útsetningin  hjá  Elkem  var  mikil hvað varðar magn og tíma samkvæmt læknisfræðilegum heimildum og fyrirliggjandi upplýsingum um atvik málsins,“ segir í matsgerðinni. Var maðurinn metinn með 35 prósent varanlegan miska og 30 prósent varanlega örorku.

Í annarri yfirmatsgerð sem gerð var í október árið 2020 komust yfirmatsmenn að þeirri niðurstöðu að afsogskerfi hafi verið aðalvandamál sem sett hefði af stað keðjuverkun aukinnar útsetningar fyrir innöngun á fínu kísilryki. Þetta vanmat hafi svo leitt til skorts á aðgerðaáætlun til að bæta ástandið, þar með talið þjálfun í notkun og umhirðu innöndunargríma og fjarlægingu ryks vélrænt frekar en að láta starfsmenn sópa.

„Ljóst væri af dómskjölum að starfsumhverfið hefði verið heilsuspillandi vegna  óþrifnaðar, hita og rykmengunar. Líklegast væri að sjúkdómur stefnanda  stafaði af innöndun á kvarsryki í starfi sínu. Loks væri það niðurstaða yfirmatsmanna að starfsumhverfi stefnanda hjá vátryggingartaka (Elkem), þar    sem kvarsmengun hefði  endurtekið mælst yfir leyfilegum mörkum, hefði orðið  þess valdandi að hann þróaði með sér sjúkdóminn granulomatosispolyangiitis (GPA),“ segir í dómnum.

Í dómnum kemur fram að Vinnueftirlit ríkisins hafi margoft gert mælingar á ryki í verksmiðju Elkem á tímabilinu 2008 til 2013. Rykmengun hafi ítrekað mælst yfir leyfilegum mörkum. Árið 2011 hafi verið ráðin bót á þeim ráðstöfunum sem voru gerðar meðal starfsmanna um að bera alltaf grímu við töppun ofna. Þá var lagt í miklar framkvæmdir til að bæta loftgæði í verksmiðjunni fyrir 100 milljónir króna árið 2012.  

Voru starfsmanninum dæmdar tæpar 22 milljónir króna auk vaxta og 1,5 milljón í miskabætur auk vaxta. Þá var Sjóvá gert að greiða rúmlega 4,7 milljónir í málskostnað. Dóminn má lesa hér.