Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stærri hópur fær AstraZeneca hér, enginn í Noregi

15.04.2021 - 18:49
Mynd: RÚV/Almannavarnir/Grímur Jón  / RÚV
Sóttvarnalæknir segir að bráðlega hefjist bólusetningar á 65 ára og eldri með bóluefni AstraZeneca og mögulega verði aldursviðmiðið fært enn neðar. Norðmenn ætla að gefa sér frest til að ákveða hvort efnið verði leyft á ný eða ekki. Danir ætla ekki að nota það enda myndi stór hluti landsmanna hafna því - hér er traustið meira.

Ekki notað í Noregi að sinni

Í dag var tilkynnt að Lýðheilsustofnun Noregs mæli með því að hætt verði að nota efnið. Norsk stjórnvöld ætla þó að rannsaka málið betur og taka ákvörðun um málið í maí. 

Danir ákváðu í gær að hætta að nota efnið Finnar halda aftur á móti áfram að bólusetja alla yfir 65 ára aldri með efninu, það sama á við í Svíþjóð. Hér hefur verið miðað við 70 ár en sóttvarnalæknir ætlar að lækka aldursmörkin niður í að minnsta kosti 65 ár. „Við gætum hugsanlega farið niður í 60 þess vegna en við ætlum að byrja á því að fara niður í 65 plús og það er til skoðunar hvort við ættum að fara eitthvað neðar hjá körlum,“ segir Þórólfur Guðnason. 

Skammtarnir sem eru að koma nýtast

Það fer því ekki þannig að þeir 13 þúsund skammtar sem væntanlegir eru af bóluefni AstraZeneca á næstu tveimur vikum fari til spillis - en flest fólk yfir sjötugu er komið með fyrri skammtinn og stefnt að því að heilbrigðisstarfsfólk sem var bólusett með AstraZeneca fái seinni skammtinn af öðru efni. 

Helmingur Dana vil ekki AstraZeneca

Skoðanakannanir benda til þess að helmingur Dana myndi afþakka bóluefni AstraZeneca. Sú er ekki raunin hér. „Það eru yfir 90% sem ætla að þiggja bólusetningu og eftir því sem heilsugæslan tjáir okkur þá eru fáir sem afþakka AstraZeneca.“

Alma segist skilja ákvörðun Dana og Norðmanna í ljósi þess að þar virðist tíðni alvarlegra aukaverkana hærri en annars staðar eða 1 á móti 40 þúsund. Hætt var að nota AstraZeneca í Noregi 11. mars og ekki hefur verið byrjað aftur. Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs, lýsti yfir áhyggjum af aukaverkunum en sagði einnig þurfa að skoða afleiðingar þess á heilsu Norðmanna ef takmarkanir verða lengur í gildi þar en annars staðar í Evrópu. „Ég held það sé mjög mikilvægt að hver þjóð skoði fyrir eigin hag hvort áhætta er meiri en ávinningur,“ segir Alma Möller, landlæknir. 

Fáum sennilega ekki að kaupa skammta Dana

Alma segir að Danir hafi tekið þessa ákvörðun í ljósi góðrar stöðu faraldursins en útiloki ekki að grípa til þess síðar fari faraldurinn á flug. Sóttvarnalæknir telur því ólíklegt að stjórnvöld hér fái að kaupa skammtana af Dönum. 

Tíðni eða hætta á alvarlegum aukaverkunum hér er óþekkt, dæmi eru um að fólk hafi fengið blóðtappa eftir bólusetningu en Þórólfur segir þá ekki af þessari sjaldgæfu gerð sem tengd hefur verið bólusetningum með AstraZeneca. Ekki liggur fyrir hvort erfðaþættir skýra þessa auknu tíðni í Danmörku og Noregi.