Sex bjargað, einn látinn og tólf saknað eftir sjóslys

15.04.2021 - 04:29
Sex var bjargað, einn fannst látinn og tólf var leitað eftir að flutninga- og lyftuprammanum Seacore Power hvlolfdi í stórviðri undan strönd Louisiana 13. apríl 2021
 Mynd: AP
Einn drukknaði og óttast er um afdrif tólf til viðbótar eftir að flutninga- og lyftuprammi sökk í miklu óveðri á norðaverðum Mexíkóflóa í gær, undan ströndum Louisianaríkis. Bandaríska strandgæslan greindi frá þessu. Fjöldi skipa, þar á meðal nokkur frá strandgæslunni, hefur verið við leit síðan prammanum hvolfdi skammt frá Port Fourchon síðdegis í gær, um 160 kílómetra suður af New Orleans.

Will Watson, skipherra á björgunarskipi strandgæslunnar, sagði á fréttamannafundi í gær að sex skipverjum hefði verið bjargað og lík eins til viðbótar fundist á reki í sjónum. Tólf væri enn saknað og leit yrði haldið áfram með öllum tiltækum skipum og ráðum.

Nær 40 metra flutninga- og lyftuprammi

Pramminn Seacor Power er 39 metra langur flutninga- og lyftuprammi af því tagi sem iðulega eru notaðir í tengslum við olíuleit og -vinnslu á grunnsævi. Þeir eru með stórt, flatt stálþilfar og langa og lengjanlega stálfætur sem standa lóðbeint upp í loftið þegar þeim er siglt á milli staða.

Þegar komið er á áfangastað eru fæturnir keyrðir niður á hafsbotninn og prammanum lyft upp fyrir yfirborðið og þannig breytt í pall sem nota má sem þyrlupall eða sem geymslu-, viðgerða- og almennt athafnasvæði. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV