Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óttast að Talibanar auki ítök sín

Mynd: EPA / EPA
Óttast er að Talibanar nái völdum á ný í Afganistan þegar Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið draga herlið sín frá landinu. Sérstaklega eru uppi áhyggjur af frelsi kvenna. 

Madiha Afzal, sérfræðingur í málefnum Afganistans hjá Brookings stofnuninni, segir slæmt að herliðin fari án allra skilyrða á hendur Talibönum, sem séu í mun betri stöðu nú en fyrir nokkrum árum. „Ef við tryggjum ekki friðarsamning milli talibana og stjórnvalda eða færumst nær samkomulagi getur allur ávinningurinn glatast, lýðræðisleg ríkisstjórn, bætt staða kvenna og barna, við gætum misst það allt. Öllu sem við höfum áorkað, eins erfitt og það hefur verið undanfarin tuttugu ár, er ógnað með þessum skyndilega brottflutningi,“ segir hún. 

20 ár liðin frá innrás í Afganistan

Eftir hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum 11. september 2001 lýsti þáverandi forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, yfir stríði gegn hryðjuverkum og Bandaríkin, ásamt bandamönnum réðust inn í Afganistan og komu Talibönum frá völdum. Síðan eru liðin tuttugu ár og tilkynnt var í gær að herirnir verði farnir frá Afganistan fyrir 11. september á þessu ári.

Mynd með færslu
Madiha Afzal, sérfræðingur í málefnum Afganistans, The Brookings Institution.  Mynd: skjáskot úr myndbandi AP

Bandarískir hermenn voru um hundrað þúsund í Afganistan þegar mest var. Joe Biden tilkynnti um brotthvarfið í gær. „Nú þegar hryðjuverkaógnin er á mörgum stöðum virðist lítið vit í að halda þúsundum hermanna í einu landi auk þess sem það kostar okkur milljarða dollara á hverju ári, að mínu mati og leiðtoga okkar,“ sagði Biden.

NATO ætlar áfram að styðja friðarferli í Afganistan

Utanríkis- og varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins ákváðu á fjarfundi í gær að binda enda á aðgerðir í Afganistan og að liðsafli ríkjanna verði farnir frá landinu fyrir 11. september. Í yfirlýsingu sem bandalagið sendi frá sér að fundinum loknum segir að bandalagið ætli áfram styðja friðarferli og  uppbyggingarstarf í landinu. 

Þiggja ekki boð um friðarviðræður í apríl

Talibanar stjórnuðu Afganistan með harðri hendi frá árinu 1996 til 2001. Stjórn þeirra einkenndist af strangri túlkun á íslam og þeir bönnuðu konum að vinna og stúlkum að ganga í skóla. Þeir berjast um yfirráðin við ríkisstjórn landsins sem stjórnar borgum og stærri bæjum. Á landsbyggðinni hafa Talibanar völdin en vilja stjórna landinu öllu. Margir óttast að það gerist þegar erlendu herliðin fara. Mitch McConnell, leiðtogi minnihlutans í Öldungadeild Bandaríkjaþings, var harðorður í garð Bidens vegna brotthvarfsins. „Við eigum víst að hjálpa andstæðingum okkar að halda upp á ártíð árásanna 11. september með því að pakka landinu inn í gjafapappír og afhenda þeim,“ sagði hann.

Boðað hefur verið til friðarviðræðna milli Talibana og afganskra stjórnvalda í Tyrklandi síðar í þessum mánuði en Talibanar neita að taka þátt í slíku fyrr en öll erlendu herliðin eru farin frá landinu.