Lifnar senn yfir Keflavíkurflugvelli

Mynd: RÚV/Bragi / RÚV/Bragi
Það styttist í að líf færist yfir Keflavíkurflugvöll á ný. Amerísk flugfélög hefja áætlunarflug hingað í maí og fjöldi evrópskra flugfélaga hefur tryggt sér lendingapláss í sumar. Þá fjölgar senn í hópi starfsmanna á flugvellinum.

Þegar ferðamannastraumurinn náði hámarki í júlí 2018 flugu 29 flugfélög hingað til lands og brottfarir voru þegar mest lét allt að 115 á dag. Nú eru flugfélögin sex og samkvæmt skjánum hér í brottfararslanum er aðeins ein brottför á morgun, flugvél Icelandair til Kaupmannahafnar. En það eru teikn á lofti um að fljótt færist líf í flugstöðina á ný.

Ameríka tók við sér þegar ný reglugerð tók gildi

Flugvöllurinn lætur ekki mikið yfir sér þessa dagana. Flugstöðin var tóm þegar við litum þar við í dag, einstaka starfsmenn á ferli en engir farþegar. Fjöldi vinnutækja stendur óhreyfður í skýlum og geymslum. Þau komast þó brátt í gagnið á ný. Delta hefur áætlunarflug frá þremur borgum í Bandaríkjunum í byrjun næsta mánaðar, en þar höfðu nýjar reglur um komu bólusettra farþega utan Schengen úrslitaáhrif. „Við sáum strax breytingu, þeir bættu við og félög eins og Air Canada var búið að ákveða að fljúga ekki til Íslands í sumar en breyttu um kúrs og þeir ætla að fljúga,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates.

Evrópuflugið fer hægar af stað en engu að síður hefur vel á annan tug flugfélaga tryggt sér lendingapláss á Keflavíkurflugvelli auk þess sem Play stefnir að því að hefja flug í júní. Hvenær þau geta hafið flug hingað ræðst af framgöngu faraldursins en vonir eru bundnar við Bretlandsmarkað.

Ráða 70 manns í fyrsta holli

Starfsmenn Airport Associates, sem veita um helming þeirra flugfélaga sem hér lenda þjónustu, eru í dag um 100 talsins. Þeir voru um 700 þegar mest lét. Nú stendur til að fjölga á ný. „Við erum bara byrjuð að ráða inn núna, í fyrsta holli núna í maí erum við að ráða inn sirka 70 manns og miðað við áætlanir þá komum við til með að ráða eftir því sem líður á sumarið og eftir því sem að áætlunin þéttist hingað inn, þannig að ég reikna með því að við séum að fara að bæta við um 200 manns,“ segir Sigþór.

Kallað hefur verið eftir að herða reglur á landamærunum enn frekar svo hægt verði að færa lífið í svo næst sem eðlilegt horf innanlands. Sigþór segir þá umræðu á villigötum. Nú þegar sé búið að bólusetja viðkvæmustu hópanna og því ætti að einblína á hvernig hægt er að opna landamærin með sem öruggustum hætti. Hann bendir á að í Reykjanesbæ sé 25 prósent atvinnuleysi. „Ég held að þeir sem eru búnir að vera atvinnulaus í rúmt ár, að þau séu ekkert að tala mikið um lokun landamæra áfram.“

Magnús Geir Eyjólfsson