„Kynlíf er ein birtingarmynd kærleika guðs“

Mynd: Benjamín Hrafn Böðvarsson / Facebook

„Kynlíf er ein birtingarmynd kærleika guðs“

15.04.2021 - 11:55

Höfundar

„Af hverju er ekki talað um kynlíf í kirkjunni, og þarf kannski að tala um kynlíf í kirkjunni?“ spyr séra Benjamín Hrafn Böðvarsson sem stýrir Kirkjucastinu ásamt séra Degi Fannari Magnússyni. Mikil og klofin umræða skapaðist í kringum nýjasta þátt hlaðvarpsins þar sem félagarnir ræða við Gerði Arinbjarnardóttur eiganda hjálpartækjaverslunarinnar Blush.

Kirkjucastið eru hlaðvarpsþættir í umsjón Benjamíns Hrafns Böðvarssonar prests í Austfjarðaprestakalli og séra Dags Fannars Magnússonar. Í nýjasta þættinum, sem varð aðgengilegur á streymisveitum í morgun, ræða þeir við Gerði Arinbjarnardóttur eiganda hjálpartækjaverslunarinnar Blush um kirkjuna, kynlíf, sjálfsfróun og kynlífstæki. Kynningin á efni þáttarins vakti mikil viðbrögð. „Ég vil byrja á að gefa honum Degi Fannari kollega mínum og meðstjórnanda smá kredit fyrir þetta allt saman en það var hann sem kom þessu viðtali við Gerði Arinbjarnar í kring,“ segir Benjamín sem kíkti í Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Hugmyndin að Kirkjucastinu kviknaði í fyrstu bylgju COVID þegar prestunum var gert ókleift að hitta söfnuð sinn og fermingarbörn vorsins vegna samkomutakmarkanna. Upprunalega ætluðu þeir að miðla fræðslu til fermingarbarna í hlaðvarpinu en ákváðu svo að færa út kvíarnar og fjalla almennt um kristna trú á mannamáli fyrir áhugasama á öllum aldri. „Í raun höfum við svolítið frjálsar hendur með þetta og topicin koma mjög handahófskennt oft, eins og núna,“ segir hann.

„Þarf kannski að tala um kynlíf innan kirkjunnar?“

Vísir birti viðal við Benjamín um málið í gær og hann tekur fram að einhvers misskilnings hafi gætt í umræðunni um nýjasta þáttinn, efni hans og tilgang. „Fólk veit raunar ekki alveg hvað verður í þessum þætti nema að það er viðtal við hana Gerði Arinbjarnar og við erum að tala um kynlíf og við erum að tala um sjálfsfróun, en upphaflega topicið er trú, kynlíf og kirkjan,“ segir Benjamín og spyr: „Af hverju er ekki talað um kynlíf í kirkjunni, og þarf kannski að tala um kynlíf í kirkjunni?“ Þetta er vegið og metið í þáttunum en það sé ekki þar með sagt að þeir tali fyrir því að fá kynfræðslu inn í kirkjuna sem slíka.

 

Næsti gestur okkar í Kirkjucastinu verður Gerður Huld Arinbjarnardóttir. Hún mun ræða við okkur um kynlíf og...

Posted by Kirkjucastið on Mánudagur, 12. apríl 2021

Þöggun viðheldur gömlum kreddum um kynlíf og sjálfsfróun

Sé maðurinn sköpun guðs, og kynlíf og sjálfsfróun hluti af mannlegu eðli, segir Benjamín að það sé hluti af sömu sköpun. „Þeir sem telja að kirkjan eigi ekki að ræða um kynlíf eða sjálfsfróun, slíkt viðhorf leiðir til þess að við viðhöldum gömlum kreddum um kynlíf og sjálfsfróun - að það séu dimmir afkimar mannlegrar tilveru. Það er bara rangt,“ segir Benjamín. „Kynlíf er ein birtingarmynd kærleika guðs. Við eigum að ræða það út frá öllum sjónarhornum.“

Þöggunin geti jafnvel leitt til illvirkis og ofbeldisverka, „sem þrífast í dimmum hornum þagnarinnar,“ segir hann. Benjamín og Dagur vilja hins vegar meina að tími þöggunarinnar sé liðinn í Þjóðkirkjunni og að þeir sem hafi valið myrkrið verði upplýstir.

Eðlilegar tilfinningar í hita leiksins

Sem fyrr segir var tekist á á Facebokk-síðu þáttarins um efnið áður en þátturinn kom út. Í auglýsingunni má sjá myndir af Gerði þar sem hún heldur á handjárnum og svipum og þættinum lýst sem umræðuþætti um kynlíf og kirkjuna. Benjamín segir að umræðurnar hafi verið afar klofnar. Það megi teljast ljóst að viðbrögðin hefðu ekki verið eins mikil ef umræðuefnið væri eitthvað annað. „Það segir svolítið mikið held ég um þetta topic að þátturinn er ekki kominn út en þetta er strax farið að stuða fólk,“ segir Benjamín sem kveðst hafa skilning á því að viðfangsefnið geti vakið upp skrýtnar og óþægilegar tilfinningar, jafnvel skömm. „Það er ósköp eðlilegt að fólk upplifi þessar tilfinningar og það hefur rétt á sínum tilfinningum.“ Það sé þó síst hyggilegt að sópa umræðunni undir teppið og leyfa henni að hverfa inn í myrkrið. „Við viljum ekki fara inn í myrkrið því þá bjóðum við þögguninni aftur í heimsókn.“

Uppgjör gagnvart hinsegin samfélaginu og ný kynslóð

Í þjóðfélaginu verður umræðan um kynlíf, kynvitund og kynvitund sífellt opnari og Benjamín segir að það feli í sér frábæra tíma fyrir kirkjuna. „Það er svo margt að breytast, ný kynslóð er að taka við í kirkjunni og hægt og rólega að svara kalli samtímans finnst mér.“

Kirkjan sé á sama tíma í ákveðinni sjálfsskoðun og að taka ábyrgð á fortíðinni, til dæmis að gera upp misrétti gagnvart hinsegin samfélaginu í gegnum tíðina. „Þetta er tengt þessum kynslóðaskiptum og núna er kominn tími fyrir eitthvað nýtt innan kirkjunnar,“ segir hann. „Ég vil meina að það sé opnari gagnsærri umræða að eiga sér stað. Við eigum ekki að sópa hlutum undir teppið sem okkur finnst óþægilegt að tala um.“

Hann bendir á að kirkjan boði kærleiksríkan guð sem skapar heiminn og skapar mennina sem kynverur sem stunda kynlíf og sjálfsfróun. „Það er gott. Ef það er gert með virðingu kærleika og samþykki þá eigum við bara að leggja blessun okkar yfir það. Það er mín skoðun,“ segir hann að lokum.

Rætt var við Benjamín Hrafn Böðvarsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

Kolvitlaus mynd af Jesú í flestum kirkjum á Íslandi

Trúarbrögð

„Skiptir ekki máli hvort Jesús sé trans, kona eða karl“