Íslendingar selja erótík á OnlyFans

15.04.2021 - 12:07
Mynd: - / samsett mynd
Undanfarið hafa borist fréttir af ungu fólki á Íslandi sem hefur á skömmum tíma þénað milljónir með sölu á erótísku efni í gegnum samfélagsmiðil sem kallast OnlyFans. Þó OnlyFans byggist á sama grunni og samfélagsmiðlar á borð við Instagram og Twitter – svona þannig séð – þá eru notendurnir þar í allt öðrum tilgangi. 

Samfélagsmiðillinn OnlyFans var örskýrður í Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

En hvað er OnlyFans, hvers konar efni er dreift þar og hver notar miðilinn? Við skulum skoða málið í örskýringu sem gæti farið fyrir brjóstið á viðkvæmum, móðgunargjörnum og guðhræddum. 

Samfélagsmiðillinn OnlyFans var stofnaður í London í september árið 2016. Ólíkt Instagram og Twitter þá gerast notendur áskrifendur hjá þeim sem framleiða efni til birtingar á OnlyFans og greiða fyrir það mánaðarlega upphæð. Margir notendur greiða einnig fyrir efni sem er ætlað þeim persónulega. 

Fjölbreyttur hópur framleiðir efni til að dreifa á miðlinum; líkamsræktarþjálfarar, kokkar og tónlistarmenn eru þar á meðal en langstærsti hópurinn framleiðir erótískt efni. Framleiðendur efnis á OnlyFans ráða hversu mikið þeir rukka aðdáendur sína en upphæðin er yfirleitt um 2.500 krónur á mánuði.

Framleiðendum og notendum hefur fjölgað hratt eftir að heimsfaraldurinn braust út í fyrra og í dag eru notendur yfir 50 milljónir og framleiðendur komnir yfir milljón. Samfélagsmiðillinn heldur eftir 20 prósentum af tekjum framleiðenda efnisins. 

En eru einhverjir Íslendingar þarna? 

Hispurslaust viðtal við Klöru Sif Magnúsdóttur í hlaðvarpsþættinum Eigin konur vakti talsverða athygli á dögunum. Hún hefur þénað 15 milljónir króna á nokkrum mánuðum með sölu á erótísku efni á OnlyFans og segir í viðtalinu að ungir karlar séu stærsti viðskiptavinahópurinn. Fleiri Íslendingar sem framleiða erótískt efni á miðlinum hafa stigið fram í kjölfarið á viðtalinu við Klöru Sif. 

Og hvað með skuggahliðarnar?

Í rannsókn sem birtist í fræðiritinu International Small Business Journal var varpað ljósi á skuggahliðar OnlyFans. Þar kom meðal annars fram að framleiðendur hefðu lent í eltihrellum og ýmiss konar áreitni ásamt því að persónuupplýsingum þeirra hefði verið lekið. 

Fjallað var um fjármál OnlyFans á vef Forensic News í fyrra og þar kom fram að framleiðendur efnis þar hefðu lent í því að aðgangur þeirra var frystur fyrirvaralaust og fjármunir horfið. OnlyFans er í eigu Leonid Radvinsky, sem efnaðist í klámiðnaðinum, en hefur verið kærður fyrir svik, þjófnað og sölu á eiturlyfjum. 

Í umfjöllun í New York Times var hins vegar bent á að OnlyFans hafi fært völdin frá klámiðnaðinum til fólksins. Þá hefur verið bent á að samfélagsmiðillinn minnki líkurnar á því að fólk sem framleiðir erótískt efni verði fyrir ofbeldi, til dæmis á tökustað.

atlifb's picture
Atli Fannar Bjarkason