Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Heilsuvernd tekur við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar

Mynd með færslu
 Mynd: Halldór Guðmundsson
Bæjarstjórinn á Akureyri gleðst yfir því að samningar um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar séu nú loks í höfn. Heilsuvernd tekur við rekstrinum um næstu mánaðamót.

Akureyrarbær var fyrst sveitarfélaga til að segja upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila. Óvissa hefur ríkt um hvernig yfirtöku ríkisins verði háttað, en nú hefur verið samið við Heilsuvernd um að taka við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar.

„Ákafleg glöð að þessu langa ferli sé lokið“

„Ég er ákafleg glöð að þessu langa ferli sé lokið og við séum búin að klára samninga. Ég held að þetta verði bara mikið gæfuspor fyrir alla aðila,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Samningum um öll aðalatriði sé lokið

Lokið sé samningum um öll aðalatriði varðandi þennan rekstur en nokkur smærri atriði séu óleyst. „Það er búið að skrifa undir samning milli Heilsuverndar og Sjúkratrygginga Íslands og ráðherra hefur staðfest þá smninga. Og við eigum eftir að ganga frá nokkrum atriðum okkar á milli, semsagt Heilsuvernd og Akureyrarbær, en stóru línurnar liggja fyrir.“ 

Telur almenna sátt um þessa niðurstöðu

Ásthildur segist ekki skynja annað en forsvarsmenn Öldrunarheimila Akureyrar séu sáttir við þennan nýja samning. „Ég gat ekki heyrt annað, á fundi sem við áttum með stjórnendum í morgun, en að þeim lítist mjög vel á Heilsuvernd og þeirra hugmyndafræði. Öldrunarheimili Akureyrar hafa verið í fararbroddi í þjónustu við aldraða í gegnum tíðina og það er markmið Heilsuverndar að halda áfram því góða starfi sem þar hefur verið unnið. Þannig að ég gat ekki heyra annað en að fólk væri almennt sátt við þessa niðurstöðu.“     

Muni létta mikið á reksti Akureyrarbæjar 

Það starfa nærri 300 manns hjá Öldrunarheimilum Akureyrar. Starfsemin er á tveimur stöðum - á Hlíð og Lögmannshlíð þar sem eru heimili fyrir 182 íbúa. Ásthildur segir reksturinn hafa kostað bæinn um 400 milljónir króna á síðasta ári. Það komi svo í ljós í á næsta ári, að afloknu heilu rekstrarári, hver útkoman verði án þessa reksturs. „Það leikur enginn vafi á því að þetta mun létta töluvert á restrinum hjá okkur.“