Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hefði viljað skoða fleira en að lækka hámarkshraða

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Auka á loftgæði og fækka slysum með því að lækka hámarkshraða í Reykjavíkurborg á næstu árum. Þessar breytingar munu kosta um einn og hálfan milljarð. Framkvæmdastjóri FÍB segir að skoða hefði mátt fleiri möguleika.

Hámarkshraði mun lækka úr fimmtíu niður í fjörutíu kílómetra á klukkustund á stofnleiðum í borginni, og að langstærstum hluta innan íbúðarhverfa og á vistgötum verður hámarkshraði þrjátíu eða lægri. Þetta var samþykkt í umferðar- og skipulagsráði borgarinnar í gær. Þessar breytingar ná ekki til gatna sem heyra undir Vegagerðina, en meðal þeirra eru Miklabraut og Sæbraut. 

Telur hafa mátt skoða fleiri kosti

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Bifreiðaeigenda segir þessa ákvörðun illa ígrundaða 

„Þetta myndi þýða verulegan kostnað fyrir almenning og fyrir fyrirtækin í landinu ef ætti að fara í þessa aðferðafræði.“ 

Fleiri valmöguleika hefði mátt skoða til þess að auka umferðaröryggi og bæta loftgæði. Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar segir það hafa verið gert.

„Greiningarvinnan var mjög ítarleg að mínu mati, bæði hvað varðar áhrif á tafir, hvað varðar mengun og hvað varðar umferðaröryggi.“ 

Reiknað er með að kostnaður við hraðalækkunina sé um einn og hálfur milljarður. Ágóðinn af lækkaðri slysatíðni muni þó bæta upp fyrir þau útgjöld.

Fjölga þarf strætisvögnum og breyta tímatöflu

Þetta verður líka til breytinga hjá Strætó. Reiknað er með að endurskoða þurfi tímatöflur og fjölga vögnum og að rekstrarkostnaður aukist um 150 milljónir á ári. Með þessu verði þá þörf á að fjölga forgangsakreinum og -ljósum, en Pawel segir það í skoðun í samráði við Strætó.

Dánarlíkur minnka verulega þegar hraði er minni

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans segir lægri hámarkshraða fækka alvarlegum slysum í umferðinni. 

„Ef að bíllinn er á fimmtíu kílómetra hraða eru almennt 80-90 prósent líkur á að ungur og annars hraustur einstaklingur látist úr þessu, en ef bíllinn er á 30 kílómetra hraða þá eru þessar líkur kannski innan við tíu prósent.“ 

Breytingarnar eiga að taka einhver ár, en fyrstu göturnar með breyttum hámarkshraða gætu þó sést strax í sumar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg - Aðsend
Núverandi hámarkshraði í Reykjavík
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg - Aðsend
Tilvonandi hámarkshraði eins og ný áætlun gerir ráð fyrir