Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hatursglæpum gegn fólki af asískum uppruna fjölgar

15.04.2021 - 22:32
Mynd: AP / AP
Nýtt lagafrumvarp gegn hatursglæpum var samþykkt á Bandaríkjaþingi í gær. Tilkynningum um hatursglæpi gegn Bandaríkjamönnum af asískum uppruna hefur fjölgað mjög mikið undanfarna mánuði.

„Við viljum tryggja að yfirvöld og lögreglumenn hafi verkfærin sem þau þurfa til að þekkja rasískar staðalímyndir. Hvað sannar ásetning í hatursglæp sem ákært er fyrir? Í lögunum eru líka þættir sem fela í sér ráðgjöf og fræðslu ef og þegar einhver er sakfelldur fyrir hatursglæp,“ sagði Grace Meng, þingmaður Demókrata.

Breið samstaða var um lagafrumvarpið í öldungadeildinni, en það er ekki samþykkt af ástæðulausu. Tilkynningum um hatursglæpi gegn fólki af asískum uppruna hefur fjölgað umtalsvert undanfarið ár í Bandaríkjunum, árið sem Bandaríkjamenn sem og aðrir jarðarbúar hafa glímt við kórónuveirufaraldurinn. 

„Mér finnst svo augljóst hvaðan þetta kemur. Þetta kemur frá Donald Trump og Repúblikönum sem eru auðsýnilega rasistar og fullir útlendingahaturs í garð Kínverja með fullyrðingum sínum um Kung-flu og Kínaveiru. Hann hrærði vissulega upp í potti haturs á asísku fólki,“ sagði Kenji, einn mótmælenda. 

Sameinuðu þjóðirnar birtu í fyrra skýrslu þar sem vandamálið er greint.

Hótanir, líkamlegt og andlegt ofbeldi og útskúfun eru meðal þess sem Bandaríkjamenn af asískum uppruna finna fyrir í auknum mæli.

Fyrir um mánuði síðan skaut maður átta til bana í Georgíu, sex þeirra voru konur af asískum uppruna. Þessu hafa mannréttindasamtök, og einfaldlega ósköp venjulegt fólk, reynt að vekja máls á með kröfugöngum og samstöðufundum undanfarnar vikur. 

Í spilaranum að ofan má sjá ítarlegri sjónvarpsfrétt um málið. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV