Grunnskóli braut persónuverndarlög í eineltismáli barns

15.04.2021 - 23:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að grunnskóli hafi brotið persónuverndarlög með því að senda ráðgjafafyrirtæki viðkvæmar persónuupplýsingar barns í tengslum við eineltismál. Upplýsingarnar voru sendar eftir að ákvörðun lá fyrir að ráðgjafafyrirtækið kæmi ekki lengur að eineltismálinu. Sveitarfélagið bað foreldra barnsins afsökunar.

Þetta kemur fram á vef Persónuverndar.

Grunnskólinn sagði í erindi sínu að leitað hefði verið til ráðgjafafyrirtækisins KVAN í tengslum við eineltismál hjá barni. Ráðgjafi á vegum fyrirtækisins vann  að málinu í nokkra mánuði eða þar til ákveðið var að fyrirtækið kæmi ekki lengur að málinu og eineltisteymi skólans tæki við því. 

Þremur vikum seinna sendi starfsmaður KVAN tölvupóst til starfsmanns grunnskólans og spurði um stöðu mála. Grunnskólinn sagði að starfsmaðurinn hefði ekki verið meðvitaður um að samstarfinu við ráðgjafafyrirtækið væri lokið og hefði því verið í góðri trú í samskiptum sínum við það.

Í tölvupóstinum sem starfsmaðurinn sendi hefðu ekki komið fram neinar nýjar persónuupplýsingar sem starfsmaður ráðgjafafyrirtækisins hefði ekki þegar haft vitneskju um. Þrátt fyrir það hefði sveitarfélagið beðið foreldra barnsins afsökunar.

Foreldrarnir sögðu í kvörtun sinni að starfsmaður skólans hefði í tölvupóstinum sent viðkvæmar persónuupplýsingar um barnið án þeirra samþykkis og upplýsingar um stöðu málsins.

Persónuvernd segir í niðurstöðu sinni að það sé ámælisvert að grunnskólinn hafi ekki tryggt að allir starfsmenn sem komu að máli barnsins hafi ekki verið upplýstir um að samstarfinu við ráðgjafafyrirtækið væri lokið. Breyti engu þótt að upplýsingarnar í tölvupóstinum hafi ekki verið nýjar nema að takmörkuðu leyti.

Grunnskólinn hafi ekki haft heimild til að miðla þessum upplýsingum og hafi  því brotið persónuverndarlög.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV