Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ekki verður látið af notkun AstraZeneca hér á landi

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Ekki stendur til að láta af notkun bóluefnis AstraZeneca hér á landi líkt og Danir hafa ákveðið. Norðmenn tilkynna ákvörðun sína um áframhaldandi notkun efnisins í dag. Áhyggjur hafa verið uppi um blóðtappamyndun af völdum þess og eins bóluefnis Janssen. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna að skynsamlegt væri að halda áfram að nota bóluefnið með þeim takmörkunum sem eru í gildi.

„Við höfum ákveðið að halda áfram notkun þess bóluefnis hér hjá aldurshópnum 65 ára og eldri og hugsanlega verður hægt að fara niður í sextíu ára og eldri hjá þeim einstaklingum sem ekki eru með sögu um undirliggjandi blóðsiga eða blæðingavandamál.“ 

Hann kvað engar formlegar þreifingar séu í gangi um að kaupa AstraZeneca bóluefni af Dönum enda ætli þeir að geyma efnið uns grípa gæti þurft til þess.

Alma Möller landlæknir áréttaði danski landlæknirinn hafi talað mjög skýrt um að bóluefnið verði hugsanlega notað síðar. Bjartsýni ríkir um áframhald bólusetningar og Víðir Reynisson, Alma og Þórólfur sögðust búast við frábæru sumri. 

Þórólfur benti á að aukaverkanir af völdum bóluefnisins séu algengari í Noregi og Danmörku en annars staðar en ekki sé vitað hvers vegna það sé. 

Bíða á með notkun bóluefnis Janssen þar til fyrir liggja niðurstöður á rannsóknum á blóðsegavanda vestanhafs. Þórólfur benti á að þekkt sé að 20 til 30 prósent þeirra sem veikist af COVID-19 glími við blóðsegavanda. Eins sé slíkt þekkt hjá konum sem nota getnaðarvarnarpillu.

Enginn greindist innanlands með COVID-19 í gær og Þórólfur sagði vel hafa gengið að framfylgja þeim breyttu reglum sem tóku gildi við landamærin 9. apríl síðastliðinn. Veiran sé þó enn úti í samfélaginu.