Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Byrjað að bera í stíga að gosinu

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Byrjað var í dag að bera ofan í fyrsta kafla gönguleiðarinnar upp að gosinu í Geldingadölum. Til stendur að gera endurbætur á öllum stígunum á næstunni til að bæta öryggi og draga úr frekari skemmdum á náttúrunni. Þá er stefnt að því að leggja rafmagn upp að gosstaðnum og bæta fjarskipti. Loks verða ráðnir landverðir eða starfsmenn til að taka við af björgunarsveitarmönnum.

Við vitum ekki hve lengið gosið á Reykjanesskaga mun standa yfir. Því gæti lokið á morgun og það gæti gosið árum saman. Fram að þessu hafa björgunarsveitarmenn staðið vaktina á gosstað. Ljóst er að þeir geta ekki sinnt þessu starfi um ókomna tíð. Á þriðjudaginn þurfti t.d. að kalla menn af fjalli til að sinna útkalli þegar bátur strandaði við Grindavík. Það fór þó betur en á horfðist og báturinn komst á flot.

Auglýst eftir starfsmönnum

Nú er unnið að því að aðrir leysi björgunarsveitarfólkið af. Grindavíkurbær auglýsti um daginn eftir sumarstarfsmönnum eldri en 18 ára og 34 sóttu um. Fyrirhugað er að einhverjir í þessum hópi muni sinna gæslu á gosstað.

„Jú, við eigum von á því að einhver hluti þessa hóps muni koma til aðstoðar þar við að leiðbeina og annast um svæðið sem björgunarsveitarmenn hafa verið að sinna fram að þessu,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. 

Aðgengi bætt

Ferðamálastofa, Umhverfisstofnun og ráðuneyti hafa komið að málum. Ólafur Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir aðkomu stofnunarinnar vera að koma í veg fyrir frekari skemmdir sem hafa orðið vegna mikils ágangs. Með því mætti tryggja öryggi, greiða aðgengi og vernda náttúruna.

„Landvarslan gæti komið að einhverju leyti í staðinn eða öllu heldur stutt við það viðbragð sem nú er búið að vera. Nú eru viðbragðsaðilar búnir að vera þarna í töluverðan tíma. Það þurfi þá að skoða það hvernig það verði trappað niður þegar að því kemur. Og þá hægt að vera með landverði sem gætu haft það hlutverk að upplýsa, stýra umferð og að einhverju leyti að tryggja öryggi,“ segir Ólafur.

Mynd með færslu
Gönguleiðir að gosinu

Rafmagn að gosstað

Gossvæðið var lokað í dag. Sá tími var notaður til að leggja ofaníburð á fyrsta kafla gönguleiðarinnar að gosstöðvunum, um 600 til 800 metra frá þjóðveginum að Borgarfjalli. Þessi leið hefur verið nokkuð erfið yfirferðar. Fannar Jónasson bæjarstjóri segir að sótt hafi verið um framlög frá ríkinu til að bera í stígana upp að gosinu og jafnframt að það verði lagt rafmagn upp að því.

„Það er verkefni sem er unnið að einmitt þessa dagana. Síðan þarf að vera þarna rafmagn ef að þetta verður framtíðarstaður til að leggja upp í gönguleiðina að gosinu,“ segir Fannar.

Stjórnvöld upplýst um aðgerðir

Það kostar allt peninga. Til greina kemur að nýta ráðningarstyrki sem eru í boði núna til sex mánaða til að ráða starfsmenn. Ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum enn sem komið er. Leggur Umhverfisstofnun áherslu á að þetta verði landverðir?

„Við erum að ljúka við gerð minnisblaðs til stjórnvalda til þess að þau átti sig á til hvaða aðgerða er nauðsynlegt að grípa til núna. Hvort sem það verða bæjarstarfsmenn eða einhverjir aðrir sem munu fá þetta hlutverk. Það getur ýmislegt verið til í því. Ég nefni landverði vegna þess að við teljum að það séu starfsmenn sem fá þjálfun frá Umhverfisstofnun við að sinna vörslu landsins, sinna verndun náttúrunnar og að leiðbeina ferðamönnum. Það getur bara vel passað að slíkir starfsmenn geti hentað vel í þetta verkefni,“ segir Ólafur Jónsson.