Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Börðust við eld í sinu og bílflökum - myndband

Mynd: Aðsend mynd / RÚV
Um 15 til 20 slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum á Austurlandi eru í býsna umfangsmiklu verkefni við Vífilsstaði í Hróarstungu. Þar logar eldur í sinu og skógrækt sem og í nokkrum bílum. UPPFÆRT: Slökkvistarfi lauk á fyrsta tímanum og í spilaranum hér að ofan má sjá myndir frá vettvangi og heyra viðtal Rúnars Snæs Reynissonar við Harald Eðvaldsson slökkviliðsstjóra.

„Það gengur alveg ótrúlega vel, við erum að ná tökum á skógarreitnum en það hefur verið erfitt að komast í vatn og komast um. Það er erfitt að eiga við gróðureld sem er inni í skógarreitnum,“ segir Haraldur Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri, í samtali við fréttastofu. Haraldur segir að sem betur fer standi vindur frá útihúsi og íbúðarhúsi sem þarna eru. „En því miður er hann beint yfir skógarreitinn.“ 

Bændur eru komnir á vettvang með traktora til að aðstoða við slökkvistarfið. „Þegar við erum búnir þurfum við að vakta svæðið og slökkva í glæðum.“

En eins og gróður-og skógareldur sé ekki nóg þá standa nokkur bílflök í ljósum logum. Haraldur segir að þeim verði leyft að brenna því ekki er talin nein hætta á ferðum þar. 

Í spilaranum hér að ofan má sjá myndir frá slökkvistarfi og viðtal Rúnars Snæs Reynissonar við Harald Geir Eðvaldsson slökkviliðsstjóra. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV