Bandaríkjastjórn hætti við að senda herskip á Svartahaf

15.04.2021 - 01:23
epa07647422 (FILE) - A handout photo made available by the US Navy shows the Arleigh Burke-class guided-missile destroyer USS Mason (DDG 87) at sea in the Atlantic Ocean, 22 February 2019 (reissued 14 June 2019). According to the US military, the USS Mason will be deployed to the Gulf of Oman after two civilian ships, the Front Altair and the Kokokua Courageous were damaged by suspected explosions on 13 June 2019. The USA have accused Iran of being responsible for the attacks while Tehran rejects the claims.  EPA-EFE/CLINT DAVIS / US NAVY HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY
Bandaríski tundurspillirinn Mason, sem er sömu tegundar og skipin tvö sem talin eru hafa verið á leiðinni inn á Svartahaf Mynd: EPA-EFE - US NAVY
Stjórnvöld í Washington hafa hætt við að senda tvö bandarísk herskip inn á Svartahaf. Fjölmiðlar í Tyrklandi hafa þetta eftir starfsmönnum tyrkneska utanríkisráðuneytisins. Annað herskipanna, sem koma átti í gær, miðvikudag, lét ekki sjá sig.

 

Ráðuneytið greindi frá því fyrir nokkrum dögum að því hefði borist formleg tilkynning frá Bandaríkjastjórn, um að tvö Bandarísk herskip væru væntanleg og hygðust sigla inn á Svartahafið um Bospórusund. Annað þeirra var væntanlegt í dag og hitt á morgun. Ætlunin væri að hafa þau á Svartahafi til 4. maí.

Leiðangur skipanna tveggja, sem óstaðfestar heimildir herma að bæði séu tundurspillar af stærri gerðinni, var sagður svar við auknum hernaðarumsvifum Rússa við landamæri og strendur Úkraínu.

Samkvæmt tyrkneskum fjölmiðlum hefur þessum aðgerðum verið aflýst og ekkert bandarískt herskip fór inn á Svartahaf í dag. Bandaríkjastjórn hefur hvorki staðfest að ætlunin hafi verið að senda skip á Svartahaf, né að hætt hafi verið við þá fyrirætlan.

Biden og Pútín ræddu spennuna við landamæri og strendur Úkraínu

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, ræddu saman í síma í fyrsta sinn á þriðjudag. Meðal þess sem þar kom til tals var tillaga Bidens um að þeir Pútín hittust til að ræða málin augliti til auglitis, í ótilgreindu þriðja landi.

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að forsetarnir hafi líka rætt afvopnunar- og öryggismál, og að Biden hafi kallað eftir því að Rússar drægju úr umsvifum sínum og þar með spennu við úkraínsku landamærin.

Biden, segir í tilkynningunni, hafi jafnframt lagt áherslu á „óbifanlegan stuðning Bandaríkjanna við fullveldi og yfirráð Úkraínu yfir eigin landi," um leið og hann lýsti áhyggjum sínum af „skyndilegri hernaðaruppbyggingu Rússa á hinum hersetna Krímskaga og við landamæri Úkraínu."