Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Árið 1066 í nútíma pólitíkinni

Mynd: Wikipedia / Wikipedia

Árið 1066 í nútíma pólitíkinni

15.04.2021 - 18:35

Höfundar

Í janúar 2018 heimsótti Emmanuel Macron Frakklandsforseti Theresu May þáverandi forsætisráðherra að ræða erfitt mál, flóttamannamálin. En Macron kom einnig færandi hendi: boð um að 2022 myndu Frakkar lána Bretum Bayeux-refilinn, eina mestu þjóðargersemi Frakka. Nú er tvísýnt hvort úr því verði og aðstæður reyndar aðrar en þegar boðið kom.

Brexit var ekki eina vandræðamálið, sem Theresa May leiðtogi Íhaldsflokksins erfði frá forvera sínum David Cameron þegar hún tók við af honum sem forsætisráðherra sumarið 2016. Deilur við Frakka um flóttamenn frá fjarlægum heimshlutum var annað ólseigt mál.

Macron kemur, sér og býður Bayeux-refilinn í heimsókn

Í janúar 2018 kom Emmanuel Macron Frakklandsforseti í heimsókn til May. Leiðtogarnir náðu sáttum um flóttamannamálin. Og Macron kom líka færandi hendi: Frakkar vildu lána Bretum Bayeux-refilinn.

Bayeux-sagan rifjuð upp

Refillinn er einhver merkilegasti gripur úr ensk-franskri sögu, kenndur við bæinn Bayeux í Normandí. Árið 1064 sendi Játvarður Englandskóngur mág sinn Harald Guðvinsson á fund Vilhjálms hertoga af Normandí: boðskapurinn var að Vilhjálmur ætti að taka við konungstigninni að Játvarði látnum. Já, þannig voru ensk-frönsk tengsl á þessum árum.

Þegar svo Játvarður lést tveimur árum síðar hrifsaði Haraldur sjálfur krúnuna. Vilhjálmur hélt þá frá Normandí yfir sundið til Englands í hefndarhug með sjö þúsund hermenn og tvö þúsund hesta og sigraði heri Haralds, sem sjálfur féll í orustunni við Hastings.

Ártalið 1066 greipt í breska þjóðarvitund

Orustan í október 1066 er greypt í sögu og þjóðarvitund Breta, síðasta innrásin sem tókst. Reyndar ekki einföld saga um erlenda innrás, Játvarður Englandskóngur valdi Normannann hinum megin Ermasunds sem arftaka. Sem Englandskóngur fékk Vilhjálmur viðurnefnið hinn sigursæli.

Bayeux-refillinn saumaður til minningar um sigur

Á árunum eftir bardagann var saga orustunnar saumuð í myndir á reflinum, sem er 68 metra langur og 70 sentimetra breiður. Saumaður í Englandi, gefinn dómkirkjunni í Bayeux. Refillinn hefur stundum verið kallaður fyrsta teiknimyndasagan og er einstök samtímaheimild með þetta ríkulega myndefni. Á reflinum er Odo biskup lang stærsta fígúran, ein vísbendingin um að hann hafi látið sauma refilinn. Þeir Vilhjálmur voru hálfbræður og Odo um tíma næstur kóngi að völdum.

Boð sem vakti vangaveltur

Boð Macrons og Frakka um að lána refilinn vakti ýmsar vangaveltur, hvað þeir meintu eiginlega með þessu. Var verið að minna Breta á að franskur aðalsmaður hefði lagt ensku krúnuna undir sig? Eða hvað nágrannasambandið var náið þarna fyrir tæpum þúsund árum?

Sameiginleg saga en ekki sami skilningur

May forsætisráðherra talaði um sameiginlega sögu landanna í reflinum, sem Frakkar hygðust lána Bretum og sem kæmi þá í fyrsta skipti til Bretlands í meir en 900 ár.

Á sama blaðamannafundi nefndi Macron líka söguna, en með víðari skírskotun. Það er tvennt, sagði Macron, sem hvorki óskhyggja né stjórnmál geta breytt: saga okkar og landafræðin. – Líklega hafði Macron einnig Brexit í huga sem honum þótti ógóð ákvörðun líkt og hann hnykkti á við May, þó Brexit hefði ekki verið meginefni fundarins.

Landafræðin óumdeilanleg, ekki sagan

Landafræðin er vissulega óumdeilanleg, eins og Macron sagði en tæpast sagan. Söguskilningurinn ekki alltaf og alls staðar eins. Sagan á Bayeux-reflinum er saga, sem Frakkar og Bretar líta ekki alveg sömu augum: frönsk sigursaga sem frönsku sigurvegararnir sögðu á reflinum í Englandi, sem þeir voru búnir að leggja undir sig. Og sendu refilinn heim til Frakklands, til minningar um sigurinn. Á hverju ári koma þúsundir Breta, ekki síst skólakrakkar, í safnið í Bayeux til að berja refilinn augum.

Hugmyndin kom frá Bretlandi, hentaði Macron sem hrífst af tilþrifum

Hugmyndin að láninu kom frá breskum sérfræðingi á British Museum. Það stendur til að loka Bayeux-safninu vegna viðgerða, tilvalið að á meðan heimsækti refillinn Bretland. Hugmyndinni var komið á framfæri í Elysée-höllinni, Macron féllst á hana. Hún hentaði vel á sínum tíma, svo margt sem skyggði á samband landanna og Macron hefur frá upphafi verið hallur undir tilþrif, sem er tekið eftir.

Babb í bátinn: refillinn þolir ekki flutning

Lánið var frá upphafi háð því skilyrði að refilinn þyldi flutninginn. Nú er komið babb í bátinn, refillinn allt of illa farinn til að þola flutning. Á Victoríu- og Albertsafninu, sem átti að hýsa refilinn hér, er nú sú hugmynd uppi að söfnin tvö sameinist um að gera við refilinn. Í breska safninu er einstök heimild um refilinn: ljósmyndir af honum frá því um 1870. En hvort næst saman um þessa bresk-frönsku samvinnu á tímum deilna um bóluefni og Brexit er annað mál.

Tengdar fréttir

Myndlist

Hápólitískt lán á miðaldamyndlist