Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Uppræta þarf myglu svo hægt verði að kenna áfram

Die mehr als 1.900 Einwohner zählende, ehemals selbstständige Stadtgemeinde Borgarnes gilt als als Heimatort des Dichters und Sagahelden Egill Skallagrímsson, dessen Vater Skallagrímr Kveldúlfsson laut Landnámabók zu den ersten Siedlern dieses Gebiets
 Mynd: Ulrich Latzenhofer
Það er mat sveitarstjórnar Borgarbyggðar að allar þær varúðarráðstafanir hafi verið gerðar í húsnæði grunnskóla Borgarbyggðar að Kleppjárnsreykjum sem lagðar voru til af sérfræðingum í myglumálum. Því sé óhætt sé að vera þar út þetta skólaár. Fulltrúi minnihlutans í sveitarstjórn andæfir því.

Ástand húsnæðisins að Kleppjárnsreykjum var til umræðu á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 8. apríl síðastliðinn. Nokkrir nemendur grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum hafa sýnt einkenni sem mögulegt er að megi rekja til myglu. 

Davíð Sigurðsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í sveitarstjórn segir ekki forsvaranlegt að fólk dvelji þar fyrr en öll mygla og rakaskemmdir hafi verið upprætt.

Hann kveður ekki fullvissu fyrir því að þær aðgerðir sem farið hafi verið í séu fullnægjandi til að tryggja heilsu skólabarna og starfsfólks.  

Færanlegar skólastofur eru væntanlegar innan skamms að grunnskóla Borgarbyggðar að Kleppjárnsreykjum að því er fram kemur í bókun meirihluta sveitarstjórnar.

Davíð segir áríðandi að nemendur og foreldra þeirra geti valið hvort þau nýti sér færanlegar skólastofur eða sæki nám á Varmalandi eða í Borgarnesi. 

Heildarskýrsla um ástand húsnæðisins er komin og því er mat meirihlutans að hægt sé að taka ákvörðun um það til framtíðar. Davíð telur mikilvægt að fyrir liggi undir lok skólaársins hvað til standi varðandi endurbætur á húsnæðinu. 

Kristján Finnur Kristjánsson, umsjónarmaður eignasjóðs Borgarbyggðar, greindi frá því að vinna væri hafin við að uppræta þann raka sem fannst við rannsókn.

Honum var jafnframt falið að meta hvaða endurbætur þarf að gera og hver kostnaðurinn sé við framkvæmdirnar. Sveitarstjóra var falið að undirbúa kynningu á mótvægisaðgerðum fyrir starfsfólki og foreldrum nemenda við skólann.