Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samgöngustofa tekin til bæna vegna falls WOW air

14.04.2021 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Samgöngustofa veitti samgönguráðuneytinu misvísandi upplýsingar um fjárhagseftirlit með flugfélaginu WOW air. Þegar ráðuneytið sendi samgöngustofu skýr fyrirmæli um sérstakt eftirlit í september 2018 sagðist Samgöngustofa þá þegar vera að vinna að slíku að mati þótt það hefði ekki hafist fyrr en tveimur vikum seinna. „Ótækt er að stofnun veiti ráðuneyti sínu svo misvísandi upplýsingar ekki síst þegar ástandið er jafn viðkvæmt og raun bar vitni.“

Flugöryggi aldrei stefnt í hættu

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fordæmalausri skýrslu Ríkisendurskoðunar um fall WOW air sem send var tveimur þingnefndum fyrir páska og á eftir að fá umfjöllun í þeim.  Fréttastofa hefur skýrsluna undir höndum. 

Í henni kemur skýrt fram að aldrei hafi komið upp vafi um að fjárhagsvandræði WOW hafi teflt flugöryggi í tvísýnu. „Stjórnendur Wow air hf. virðast hafa gætt þess í hvívetna að forgangsraða fjármálum félagsins þannig að allur kostnaður sem laut að öryggismálum var greiddur, en önnur gjöld og reikningar látnir bíða eins og hægt var eða samið um greiðslufresti.“

Vissi af erfiðleikum WOW í maí 2018

En það er eftirlitið með fjárhagsstöðu flugfélagsins sem virðist hafa brugðist hjá Samgöngustofu og stofnunin er sögð hafa veitt ráðuneyti sínu misvísandi upplýsingar.

Aðdragandinn er rakinn nokkuð ítarlega í skýrslunni. Þar kemur meðal annars fram að Samgöngustofa vissi af erfiðleikum flugfélagsins eftir fund með forsvarsmönnum WOW í maí 2018.  Á þeim fundi kom fram að fengi félagið ekki nýtt fé í reksturinn hefði það ekki nægt fjármagn eftir sumarið 2018 til að standa undir rekstri vetrarins.

Ríkisendurskoðun segir í skýrslu sinni að miðað við þessar upplýsingar hefði átt að fella tímabundið úr gildi eða afturkalla flugrekstrarleyfi flugfélagsins.  Hægt hefði verið að veita tímabundið leyfi til eins árs en aldrei var gripið til slíks úrræðis né ráðist í fjárhagsmat.

Á fundi mánuði seinna hafði fjárhagsstaða WOW versnað enn og á fundi með Samgöngustofu upplýstu forsvarsmenn flugfélagsins að stefnt væri að útgáfu skuldabréfa til að afla fjármagns inn í reksturinn. 

Engar upplýsingar fengust um „ítarlega skoðun“

Ríkisendurskoðun segir í skýrslu sinni að eftirlit Samgöngustofu í aðdraganda skuldabréfaútboðsins hafi takmarkast við tvo fundi og símtöl um fjármögnunaráformin.  Það var ekki fyrr en í september, þegar styttist í niðurstöðu skuldabréfaútboðsins, að haldnir voru daglegir fundir.

Samgöngustofa tjáði Ríkisendurskoðun að ekki hefði verið talin þörf á því að veita WOW tímabundið flugrekstrarleyfi eftir „ítarlega skoðun.“ Í skýrslunni segir að engar upplýsingar hafi fengist um hvað fólst í þessari skoðun þótt eftir því hefði verið leitað. 

Ráðuneytið bauð fram aðstoð FME

Á fundi Samgöngustofu og samgönguráðuneytisins í byrjun september 2018 virðist hafa slegið aðeins í brýnu milli ráðuneytisins og stofnunarinnar. Ráðuneytið ítrekað þá afstöðu sína að bregðast þyrfti við annmörkum á framkvæmd fjárhagsmats og bauð meðal annars fram aðstoð Fjármálaeftirlitsins. Því boði var hafnað.

Á fundinum gagnrýndi ráðuneytið einnig hversu langt væri í næstu fundi Samgöngustofu og WOW air. Stofnunin sagðist hafa trú á því að félagið væri „rekstrarhæft“ og hún hefði öll þau gögn sem hún þyrfti til að geta lagt mat á stöðuna. 

Félagið hefði trúverðugar áætlanir og stofnunin hefði í raun meiri áhyggjur af sumum öðrum flugrekendum sem flygju til og frá landinu en WOW air.

Alvarlegar athugasemdir við upplýsingagjöfina

Ríkisendurskoðun gerir vægast sagt alvarlegar athugasemdir við þessa upplýsingagjöf Samgöngustofu til ráðuneytisins á umræddum fundi.  Hún bendir á að Samgöngustofa hafi fengið allt aðrar upplýsingar á fundum sínum með WOW air þá um vorið og sumarið um að flugfélagið væri í fjárhagsvanda.

Þá telur Ríkisendurskoðun það alvarlegt að Samgöngustofa hafi talið sig hafa trúverðugar áætlanir og upplýsingar um að flugfélagið væri rekstrarhæft og að ekki þyrfti að óska eftir frekari gögnum um fjármál fyrirtækisins „þegar gögn sem aflað var stuttu síðar sýndu að full þörf var á sérstöku eftirliti.“

Fær skýr fyrirmæli frá ráðuneytinu

Þann 7. september sendi samgönguráðuneytið skýr fyrirmæli um að Samgöngustofa gerði ítarlegt mat á fjárhagsstöðu WOW. Það væri ljóst að stofnunin ætlaði ekki að gera þetta að eigin frumkvæði. 

Þær upplýsingar sem Samgöngustofa hefði undir höndum nægðu ekki til að leggja mat á fjárhagsstöðu WOW.

Samgöngustofa svaraði fjórum dögum seinna eða 11. september og sagðist þá þegar vera að vinna að ítarlegu fjárhagsmati WOW air sem tæki til þeirra þátta sem kæmu fram í fyrirmælum ráðuneytisins.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þetta ítarlega fjárhagsmat hafi þó ekki hafist fyrr en tæpum hálfum mánuði seinna eða 21. september. „Þau viðbrögð sem hér um ræðir með misvísandi upplýsingagjöf eru alvarleg og síst til þess fallin að auka traust og samvinnu milli Samgöngustofu og samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytis.“

Sendi ráðherrum minnisblað um vangetu Samgöngustofu

Í skýrslunni kemur einnig fram að stjórnvöld höfðu efasemdir um getu Samgöngustofu til að sinna fjárhagseftirliti með flugrekendum.

Um miðjan september 2018 sendi til að mynda samgönguráðherra minnisblað til ráðherranefndar þar sem fram kom að Samgöngustofa hefði upplýst að WOW hefði eingöngu lausafé til að standa undir rekstri í þrjá sólarhringa. 

Ráðherrann sagði í minnisblaði sínu að styrkja þyrfti þekkingu á fjárhagsmati innan Samgöngustofu þar sem það virtist skorta þekkingu til að vinna úr upplýsingum. 

Samgöngustofa hafnaði þessu boði og kannaðist í svörum sínum til Ríkisendurskoðunar ekki við þessa beiðni ráðuneytisins um hún leitaði sér aðstoðar hjá utanaðkomandi aðila.  Ríkisendurskoðun segir í skýrslunni að kanna þurfi hvaða ástæður lágu að baki því að þessi aðstoð var afþökkuð.

Gaf „hættulegt fordæmi“ á síðustu dögum WOW

Það var svo í lok mars árið 2019 að öll sund lokuðust.  Upp úr slitnaði í viðræðum forsvarsmanna WOW air við Icelandair, Indigo og aftur Icelandair. Ríkisendurskoðun segir að Samgöngustofa hafi sýnt WOW air mikla biðlund á síðustu dögum félagsins.  Þannig hafi verið gefið hættulegt fordæmi á grunni jafnræðisreglu stjórnsýslulaga ef sambærilegar aðstæður kæmu upp aftur. 

Þá telur Ríkisendurskoðun það umhugsunarvert að yfirlýsing lögmanns skuldabréfaeigenda þann 26. mars, um að leitað væri að nýjum fjárfestum dyrum og dyngjum hafi verið talin fullnægjandi við mat á því hvort fjárhagsleg endurskipulagning hafi verið raunhæf. WOW air var lýst gjaldþrota tveimur dögum seinna.  

Ríkisendurskoðun telur að hægt hefði verið gæta hagsmuna neytenda betur ef Samgöngustofa hefði afturkallað flugrekstrarleyfið síðustu fjóra dagana fyrir gjaldþrot WOW. „Hugsanlega hefði mátt stýra því betur að færri farþegar sem áttu pantað flug til og frá landinu yrðu strandaglópar og þannig reyna að lágmarka þau skakkaföll sem urðu af gjaldþroti félagsins. Einnig hefði sala farmiða stöðvast fyrr.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV