Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Play stefnir á flugtak í júní

14.04.2021 - 18:36
Mynd með færslu
Birgir Jónsson er nýr forstjóri Play.  Mynd: Íslandspóstur - RÚV
Flugfélagið Play stefnir að því að hefja áætlunarflug í lok júní. Stjórnendur félagsins tilkynna fyrirætlanir sínar á næstu dögum.

Flugfélagið Play var kynnt til leiks með pompi og prakt í byrjun nóvember 2019 og ætlaði að hefja áætlunarflug skömmu síðar. Fjármögnun gekk ekki sem skyldi og svo skall á heimsfaraldur. Félagið starfaði þó áfram og nýtti sér hlutabótaleið stjórnvalda til að greiða laun hluta starfsmanna.

Verjast allra frétta

Uppstokkun hefur átt sér stað innan félagsins að undanförnu, eins og greint hefur verið frá í Markaðinum, viðskiptariti Fréttablaðsins. Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, er orðinn forstjóri og ný stjórn tók við eftir hlutafjárútboð þar sem félagið safnaði sér rúmlega fimm milljörðum króna. Stjórnarformaður er Einar Örn Ólafsson fyrrverandi forstjóri Skeljungs en hann lagði tæpan milljarð króna í félagið. Það gerði Lífeyrissjóðurinn Birta einnig en það staðfestir framkvæmdastjórinn Ólafur Sigurðsson, í samtali við fréttastofu. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Nýi forstjórinn vildi heldur ekki veita viðtal en sagði að fyrirætlanir félagsins yrðu kynntar mjög fljótlega. Fjármögnun væri lokið og einungis ætti eftir að ganga frá formsatriðum í kringum hann.

Horfa til WOW og Iceland Express

Eftir því sem fréttastofa kemst næst er stefnt á fyrsta áætlunarflugið síðustu vikuna í júní. Hefur dagsetningin 24. júní verið nefnd. Play fer af stað með þrjár Airbus 321 leiguvélar en hugur stjórnenda stendur til að fjölga þeim fljótlega. Ekki er vitað hverjir endanlegir áfangastaðir verða en viðmælendur fréttastofu segja að þar muni lítið koma á óvart, sé horft til reynslu WOW og Iceland Express. Má leiða að því líkum að þar sé átt við Kaupmannahöfn, London og Spán.