Pílukast og óþægilegar stríðsminningar

Mynd með færslu
 Mynd: Atli Þór Einarsson - YouTube

Pílukast og óþægilegar stríðsminningar

14.04.2021 - 09:48

Höfundar

Nýtt myndband The Vintage Caravan hefur vakið mikla athygli en í myndbandinu má sjá liðsmenn hljómsveitarinnar og leikarann Vilhelm Neto eigast við í æsispennandi keppni í pílukasti þar sem fortíð eins keppandans kemur mikið við sögu. Hægt er að horfa á myndbandið hér fyrir neðan.

Leikstjóri myndbandsins er Atli Þór Einarsson sem þurfti ekki langan umhugsunarfrest eftir að hafa verið beðinn um að leikstýra myndbandinu. „Það tók aðeins eina hlustun og ég var kolfallinn fyrir laginu.”

Söguþráðurinn er ögn frábrugðinn hefðbundnum tónlistarmyndböndum. Vilhelm Neto fer með aðalhlutverkið og sjá má persónu hans eiga við félaga The Vintage Caravan í æsispennandi keppni í pílukasti. Keppnin sjálf dregur svo fram gamlar minningar aðalpersónunnar frá gömlum frumskógarstríðsátökum. Atli Þór á hugmyndina og segir að gamall draumur hafi ræst með gerð myndbandsins. „Það hafði lengi verið draumur að taka stóru dramatísku 80's íþrótta-kvikmyndaklisjurnar og yfirfæra á hljóðlátari og nákvæmari íþrótt eins og pílukast.” 

Þrátt fyrir óhefðbundinn söguþráð var ekki erfitt að sannfæra alla að taka þátt í verkefninu. „Fyrstu viðbrögð allra sem heyrðu af hugmyndinni var að hlæja og vilja vera með. Mín upplifun var að allir voru mjög spenntir að taka þátt í smá vitleysu,” segir Atli Þór.

Heill dagur fór í að taka upp myndbandið en þá var öll eftirvinnslan eftir sem í þessu tilviki var býsna mikil. Enda þurfti að skapa allt umhverfi frá grunni, þar á meðal frumskóginn úr fortíð aðalpersónunnar. „Tæknibrellurnar tóku líklega um 90% af eftirvinnslutímanum. Sjálfur taldi ég 88 skot sem þurftu brellur að einhverju tagi en eflaust eru þau fleiri. Tímafrekast var að skapa frumskóginn úr fortíð aðalpersónunnar og skapa hundruð áhorfenda sem fylgjast spennt með pílukastsmótinu. Vegna COVID-19 var auðvitað aldrei inn í myndinni að fá fólk í salinn. Síðustu vikurnar hafa því verið mjög langar en líka ótrúlega skapandi og skemmtilegar,” segir Atli Þór.

Atli Þór er að vonum ánægður með afraksturinn nú þegar myndbandið er tilbúið. „Ég er ofboðslega ánægður með afraksturinn og gæti ekki verið heppnari með tökulið og leikara. Viðbrögðin hingað til hafa líka verið rosalega jákvæð svo við öll sem komum að myndbandinu erum alveg í skýjunum.” Auk hljómsveitarinnar og Vilhelms Neto leika þau Jón Björn Ríkharðsson og Rakel Ýr Stefánsdóttir í myndbandinu. 

Það hitti þannig á að sama dag og myndbandið var í tökum var verið að streyma tónleikum The Vintage Caravan til aðdáenda út um allan heim. Þeir félagar þurftu því að hlaupa á milli píluspjaldsins og tölvunnar þar sem þeir voru að tala við aðdáendur á Zoom eftir tónleikana. Það gekk þó allt saman upp. Tökurnar hafi gengið vonum framar. „Það var frábær andi yfir öllum á setti, meira að segja í lokin á þessum langa og þétta tökudegi! Það skiptir sköpum að hafa gott fólk með sér í svona verkefni og við vorum svo sannarlega heppnir með það. Við fengum tíma til að kynnast öllum aðeins og skemmtum okkur konunglega í þessum frábæru búningum.”

Þegar tökum lauk höfðu strákarnir í raun litla hugmynd um hvernig lokaafurðin yrði enda átti þá eftir að gera allar tæknibrellurnar. Þeir eru þó í skýjunum með myndbandið. „Við höfðum mjög litla hugmynd um hversu stórkostlegar tæknibrellurnar hans Atla yrðu. Við vorum búnir að sjá vinnuna hans Atla áður og vissum að við værum í góðum höndum en þetta var algjörlega magnað hvað hann náði að framkvæma á stuttum tíma. Ótrúlega skemmtilegt myndband.”

Lagið Can’t Get You Off My Mind er á plötunni Monuments sem kemur út föstudaginn 16. apríl. The Vintage Caravan stefna á útgáfutónleika um leið og hægt er en búið er að fresta öllum tónleikaferðalögum þeirra til vors 2022.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Fyrsta platan tugi þúsunda króna virði