Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mygla í skólum slæm fyrir raddheilsu kennara og nemenda

14.04.2021 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Rakaskemmdir og mygla í húsum getur haft slæm áhrif á röddina að mati talmeinafræðings. Þannig geti mygla í skólahúsum valdið hæsi og versnandi raddheilsu hjá kennurum og nemendum.

Fjölmörg dæmi eru á síðustu árum um að mygla hafi komið upp í skólum og valdið þar tjóni og haft skaðleg áhrif á heilsu fólks.

Raddveila geti verið fyrsta dæmið um myglu í húsum

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir talmeina- og raddfræðingur var gestur í Morgunvaktinni á Rás 1. Hún segir dæmi um að raki og mygla hafi skaðað raddbönd kennara og nemenda. „Já, það bendir allt til þess, þetta hefur verið rannsakað töluvert. Og það virðist meira að segja vera svo að raddveila geti verið eitt fyrsta dæmið um að það sé myglu að finna í andrúmslofti.“

Fólk með skaddaða rödd hafi gjarnan dvalið í myglulofti

Oft komi í ljós að fólk með skaddaða rödd, sem leitar sér hjálpar, hafi dvalið í mygluðu húsnæði. „Það kemur svona í umræðunni þegar við förum að tala saman, ég og minn skjólstæðingur, að einstaklingurinn hefur verið að vinna ... og þetta þarf ekki endilega að vera atvinnuhúsnæði, þetta getur líka verið heimili. Að hann hafi dvalið í myglulofti, já.“

Erfiðara að laga skemmdir á raddböndum af völdum myglu 

Hún segir ýmsar leiðir færar til að þjálfa upp raddbönd og laga röddina, nema í þeim tilfellum sem ástæðan er mygla eða rakaskemmdir í húsum. „Þarna erum við að fást við, setjum þetta pínulítið innan gæsalappa þó, skemmdir á þessu þekjulögum raddbandanna og þessum slímbúskap sem er þar. Og það er miklu erfiðara að laga slíkt.“

Röddin ekki lögvernduð og ekki talin til lýðheilsu

Valdís segir að það skorti þekkingu á þessum málum í þjóðfélaginu og stutt sé síðan farið var að tala um rödd sem atvinnutæki. Röddin sé ekki lögvernduð og ekki tryggð fyrir skemmdum. „Þetta er ekki einu sinni á lista yfir það sem við köllum lýðheilsu og auðvitað er þetta heilsufar. Ég vildi gjarnan að bæði landlæknir og einhverjir þingmenn myndu hlusta á þetta, vegna þess að það er alveg klárt mál að það þarf að búa til einhvers konar lagastoð utan um raddöryggi.“