Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Löng bið eftir bóluefni Janssen gæti seinkað áætlun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir ekkert í þeim gögnum sem fyrir liggi, til dæmis frá Bandaríkjunum, benda til þess að bóluefni Janssen sé skaðlegra en bóluefni AstraZeneca. Hlutfall blóðsegavandamála sé mjög lágt. Hann segir að heilbrigðisstarfsfólk fái líklega ekki seinni skammt af AstraZeneca

Vestanhafs hafa greinst sex til sjö tilfelli blóðsegavandamála hjá um sjö milljónum bólusettra. „Það er mjög lágt hlutfall, einn af milljón er að mínu mati ekki ekki mikil áhætta,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu.

Torvelt sé að segja fyrir um þær afleiðingar sem tafir á afhendingu bóluefnis Janssen hafi, það fari eftir því hve lengi biðin vari. Verði biðin löng geti það seinkað bólusetningaráætluninni. Hann segir að samstarf og samráð verði haft við Norðurlöndin og önnur yfirvöld.

„Nokkrir dagar, jafnvel vika eða tvær hefur ekki áhrif á hana. Fyrirtækið sjálft stöðvaði dreifingu hér í Evrópu. Við þurfum að sjá hvernig landið liggur í þessu.“

Þórólfur segir að ef engar aðrar aukaverkanir greinast geti hann ekki séð hver fyrirstaðan ætti að vera við notkun bóluefnisins. Forgangsröðun í bólusetningu breytist þá ekki í neinum meginatriðum.

heilbrigðisstarfsfólk fái líklega ekki seinni skammt af AstraZeneca

Aðspurður segir Þórólfur að sum lönd hafa farið þá leið að gefa þeim sem höfðu fengið fyrri skammt af efni AstraZeneca bóluefni Moderna eða Pfizer og finnst líklegt að það verði niðurstaðan hér.

„Við ætlum að sjá hvað kollegarnir á Norðurlöndunum gera. Okkur liggur ekki lífið á því ekki er kominn tími á það, en við fáum botn í það fljótlega. Við erum með dreifingaráætlun fyrir Moderna og Pfizer fyrir maí og júní en ekki frá hinum þannig að við bíðum bara eftir því.“ 

Bjartsýnn á að stór hluti þjóðarinnar verði bólusettur í sumar

Þórólfur kveðst bjartsýnn á að  minnsta kosti 140 þúsund verði orðin bólusett í lok júní. Þá séu ekki talin með bóluefnin frá AstraZeneca, Moderna eða Janssen.

„Talan verður töluvert hærri og ég bind við að við verðum komin vel yfir 200 þúsund manns í júní og júlí mánuði ef allt gengur eftir. Svo er alltaf spurning hvað verður um bóluefnin frá Janssen og AstraZeneca.“ 

Hann segir óvissuþætti í þessu. „Ég hef sagt að við þurfum að bera búin undir það að eitthvað kæmi fyrir í áætlununum, að bóluefnin virkuðu ekki eða eitthvað kæmi upp í framleiðslunni sem setti strik í reikninginn.“

Þórólfur segir það vera stórt og mikið verkefni að bólusetja nánast alla þjóðina með mörgum bóluefnum. „Við þurfum að vera undir hnökrana búin.“