Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lækka hámarkshraða á götum Reykjavíkurborgar

14.04.2021 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV
Tillaga að hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt í skipulags- og samgönguráði borgarinnar í dag og vísað til borgarráðs. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að markmið áætlunarinnar sé að stuðla að bættu umferðaröryggi og að nauðsynlegt sé að draga úr umferðarhraða til að ná því. Ekki sé réttlætanlegt að fórna heilsu vegfarenda fyrir minni tafir.

„Eftir því sem hraði ökutækis er lægri þeim mun auðveldara á ökumaður með að afstýra óhappi því að á þeim tíma sem það tekur að bregðast við óvæntum atburði ferðast hann lengri vegalengd eftir því sem hraðinn er meiri. Umferðarhraði er því mjög veigamikil breyta í allri umfjöllun um umferðaröryggi. Best er ef hægt er að koma í veg fyrir að umferðarslys verði,“ segir í tilkynningu frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar. 

„Það er yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar. Það er því ekki réttlætanlegt að fórna heilsu vegfarenda fyrir aðra hagsmuni samfélagsins, eins og til dæmis minni tafir. Sé ætlunin að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni þar sem ólíkir ferðamátar mætast verður blöndun ólíkra ferðamáta að vera á forsendum gangandi og hjólandi vegfarenda,“ segir þar jafnframt.

Kostnaðurinn allt að 300 milljónir króna á ári

Gert er ráð fyrir að hámarkshraði verði 5km/klst á göngugötum og ákveðnum vistgötum, 10km/klst á almennum vistgötum, verslunargötum og húsagötum án sérstakra gangstétta, 30 km/klst á húsagötum og götum sem gegna bæði hlutverki safngata og húsagata, götum á útivistarsvæðum, götum vegna verslunar og þjónustu á hafnarsvæðum og götum við íbúðir aldraðra, framhaldsskóla og íþróttamiðstöðvar, 40km/klst á öðrum safngötum og húsagötum í iðnaðarhverfum og þá ert gert ráð fyrir að hámarkshraði verði 50km/klst á stofngötum og borgargötum.

Við vinnslu áætlunarinnar hefur verið lagt mat á kostnað við aðgerðir til að ná fram hraðalækkuninni, kostnað vegna lengri ferðatíma og ávinning af færri umferðarslysum. „Ef þessum aðgerðum er hrint í framkvæmd á fimm árum þá er kostnaðurinn 240 til 300 milljónir króna á ári,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Þar kemur jafnframt fram að lækkun hámarkshraða muni ekki minnka umferðarflæði eða skapa tafir á stofnbrautum þar sem hámarks umferðarrýmd gatnakerfisins og tafir í kringum háannatíma ráðist oftast af afkastagetu gatnamóta, ljósastýringum og annarri umferð. „Það er ekki gert ráð fyrir að lækkun hámarkshraða muni hafa mikil áhrif á tafir á háannatíma þar sem á þeim tímapunktum þá hafa umferðarljós og önnur umferð meiri áhrif á raunhraðann en leyfður hámarkshraði.“

„Rómantík sem gengur illa upp“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, telur ekki ráðlegt að ráðast í breytingarnar og segir að ekki hafi farið fram nægileg umræða um þær. „Ég teldi eðlilegt að þetta færi í eitthvað frekara ferli áður en menn ganga svona langt. Það má ekki gleyma því að búum hérna á nesi þannig allir aðdrættir fara eftir tveimur ásum að mestum hluta. Það er spurning hvernig menn ætla að gera þetta. Það þarf að breyta umferðarlögum,“ segir hann.

Einnig hafa verið færð rök fyrir því að lækka hámarkshraða til að draga úr svifryksmengun. „Ég held að þetta sé einhver rómantík sem gengur illa upp. Til að koma í veg fyrir svifryk frá umferð væri best að stöðva alla umferð en ég held að menn séu nú ekki með það á plani,“ segir Runólfur. „Auðvitað á að skoða alla hluti og möguleika en að okkar mati er þarna full langt gengið með því að vera að fara með viðmiðunarhraða í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu niður í 30 sem almennt er 50.“

Þá segir hann að fórnarkostnaður þurfi að liggja fyrir og að kostnaðaráætlun borgarinnar sé vanáætluð. „Við erum nýbúin að sjá tölur frá Samtökum iðnaðarins varðandi tafakostnað og hver áhrifin eru. Margfeldisáhrifin eru mikil. Við erum að tala um aðföng, kostnað fyrir fyrirtækin sem kemur þá fram í vöruverði og við búum því miður við það að oft þurfa foreldrar barna að sækja þjónustu í önnur hverfi með börnin sín, bæði leikskóla og tómstundastarf. Við höfum ekki ennþá komið þessum hlutum í þann farveg sem hann er í í nágrannalöndunum þar sem börn búa við heilsteyptan skóladag og geta sótt alla þjónustu á skólatíma,“ segir Runólfur.

„Allt hefur þetta áhrif og dregur úr ákveðnum lífsgæðum hjá borgurunum. Meðal annars styttist viðverutími fjölskyldna ef menn ætla að setja auknar girðingar á öll ferðalög á einkabíl,“ segir Runólfur.

Segir áætlunina vanhugsaða og auka umferðartafir

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, greiddi atkvæði gegn breytingunum. „Við viljum gjarnan gæta umferðaröryggis og höfum einmitt lagt til betri gangbrautir og ljósastýringu og lækkun hraða þar sem við á. Að lækka hraðann svona heilt yfir alla borgina er svolítið vanhugsað,“ segir hann. 

Hann segir ljóst að umferðartafir aukist. „Klárlega og þess vegna mun fólk leita annarra leiða til að komast leiðar sinnar. Það er miklu betra að vernda íbúðahverfin og viðkvæm svæði eins og skóla og leiksvæði en liðka fyrir umferð á stofnæðum og borgargötum þar sem bæði strætó og einkabíllinn fer á milli hverfa.“

Þá telur Eyþór kostnaðarsamt að lækka hámarkshraðann „Það á að setja þrengingar inn á göturnar og hægja þannig á umferð. Síðan bætist við kostnaður almennings af töfunum og í umsögn Strætó kemur fram að kostnaður þeirra verði talsverður bara til að vega upp á móti töfunum,“ segir hann.