Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Konur fjórðungur stjórnarmanna í fyrirtækjum

14.04.2021 - 10:14
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Rúmur fjórðungur stjórnarmanna fyrirtækja, sem greiða laun og eru skráð í hlutafélagaskrá, voru konur í lok árs 2020, eða 26,5 prósent. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Hagstofu Íslands.

Í stjórnum fyrirtækja þar sem fjöldi launamanna var að jafnaði færri en fimmtíu var hlutfallið 26,2 prósent en 34,1 prósent í stjórnum fyrirtækja með fimmtíu starfsmenn eða fleiri. Til samanburðar var hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með fimmtíu launþega eða fleiri 15,4 prósent árið 2008 og 9,5 prósent árið 1999.

Ef litið er á félög með 50 launamenn eða fleiri var hlutfall kvenna um 40 prósent í stjórnum þar sem stjórnarmenn voru fjórir eða fleiri, bæði fyrir almenn hlutafélög og einkahlutafélög. Í stjórnum með þrjá stjórnarmenn var hlutfallið 35 prósent fyrir almenn hlutafélög og 28,1 prósent fyrir einkahlutafélög. Í einkahlutafélögum með tvo stjórnarmenn var hlutfall kvenna í stjórn 22,8 prósent.

Í úttektinni kemur fram að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hafi farið hækkandi frá 2008 fram til ársins 2014 en haldist nokkuð óbreytt síðan þá. Þá megi merkja að hlutfall kvenna í stjórnum hækki með stærð stjórna og félaga og sé hærra í almennum hlutafélögum en í einkahlutafélögum.