Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Janssen bóluefnið komið og er í geymslu

14.04.2021 - 09:53
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Fyrstu skammtarnir af Janssen bóluefninu komu til landsins í morgun, alls 2.400 skammtar. Þeir eru nú í geymslu þar til ákveðið verður hvort og hvenær þeir verða notaðir.

 

Janssen bóluefnið er frábrugðið öðrum kórónuveirubóluefnum að því leyti að einungis þarf að gefa það einu sinni. Sem kunnugt er hefur verið ákveðið að bíða með að nota lyfið vegna gruns um að það geti valdið blóðtappa hjá fólki.  Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica, sem sér um innflutning og dreifingu á öllu COVID-19 bóluefni segir lyfið fara í geymslu um sinn.

„Já, eins og Þórólfur sagði í gær þá verður þessu ekki dreift strax á heilbrigðisstofnanir þannig að við munum bara geyma þetta bóluefni hjá okkur og bíða frekari tilmæla frá honum,“ sagði Júlia Rós í morgunþættinum á Rás 1.

Hún segir að sendingarnar frá lyfjaframleiðendunum fjórum sem hafa markaðsleyfi koma einu sinni  í viku og þær fari stækkandi. Langmest komi núna frá Pfizer. Bóluefni sé viðkvæm og vandmeðfarin vara og til dæmis þurfi að geyma bóluefnið frá Pfizer við 80 gráðu frost. Sérþjálfað starfsfólk sjái um dreifinguna.

„Það auðvitað kemur alltaf eitthvað upp á en ekkert sem ekki hefur verið hægt að bregðast við. Það hafa orðið breytingar á hitastigi, við auðvitað vorum í erfiðum mánuðum í janúar og febrúar uppi á hálendi að flytja bóluefni þannig að það hefur ýmislegt komið upp á en ekkert skemmst og ekkert sem ekki hefur verið hægt að laga.“

Hún segir dreifinguna unna í nánu samráði við landlækni og sóttvarnalækni og hún fari fram einu sinni í viku. Á suma staði eins og til dæmis Vestfirði sé farið með fáeina skammta í ferð, en jafnræðis sé gætt. Lögreglu sé alltaf tilkynnt um flutningana. Júlía Rós telur að Íslendingar væru ekki í betri stöðu ef ekki hefði verið farið í sameiginleg lyfjainnkaup með Evrópusambandinu, heldur reynt að semja beint við lyfjaframleiðendur.

„Nei, ég myndi halda ekki ef við hefðum ákveðið að fara ein og sér, við höldum oft að við séum stærst og best, ef að við hefðum ákveðið það að vera ekki með Evrópusambandinu og fara ein og sér og ef við værum þá núna með enn færri skammta en ella hvernig hefði umræðan þá verið? Ég hef verið spurð að því hvort að við hefðum einhver sambönd, hvort við hefðum getað tekið upp símann, en þetta er alls ekki þannig.“

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV