Íslenskar konur keyptu yfir 200 þúsund Hagkaupssloppa

Mynd: Jón Torfi Arason / Aðsend

Íslenskar konur keyptu yfir 200 þúsund Hagkaupssloppa

14.04.2021 - 10:49

Höfundar

Hagkaupssloppinn mætti kalla einkennisbúning íslensku húsmóðurinnar á seinni hluta 20. aldarinnar og var tölfræðilega að minnsta kosti einn slíkur til á hverju heimili á þessum tíma. Þórdís Claessen og Jón Torfi Arason rifjuðu upp Hagkaupssloppahefð Íslendinga með Selmu Ragnarsdóttur klæðskera og kjólameistara.

Selma Ragnarsdóttir fatahönnuður segir að visst æði hafi gripið um sig á árunum 1964-1980 þegar íslenskar húsmæður keyptu nærri 200 þúsund marglita nælonsloppa í Hagkaup. Þeir hafi verið sem þjóðbúningur innanhúss á íslenskum heimilum í meira en tíu ár. „Miðað við að það hafi verið gerðir yfir 200 þúsund sloppar þá hafa allar konur á Íslandi átt að minnsta kosti einn. Amma átti fjóra til fimm til skiptanna,“ segir Selma. Slopparnir voru afar skrautlegir og mætti lýsa þeim sem eins konar tískuflík sem konur klæddust heima en líka þegar þær þurftu að skjótast í búðina og vildu ekki vera í svuntu eða vinnufötunum. Slopparnir voru lokaðir, hálfsíðir og með rennilás eða hnepptir og með flatan kraga.

Selma segir að uppruna Hagkaupssloppanna megi rekja til samstarfs Soffíu Jónsdóttur og Pálma Jónssonar sem oft er kenndur við Hagkaup. Soffía var í námi í Danmörku snemma á sjöunda áratugnum þar sem hún lærði iðngrein sem meðal annars fólst í að setja upp framleiðsluferli á saumastofu. „Hún er held ég örugglega frænka Pálma í Hagkaup og þau starta þessu saman,“ segir Selma.

Sagan hermi að hann hafi farið til Þýskalands og keypt þar ýmiss konar skrautleg efni. Í kjölfarið hafi slopparnir verið saumaðir á færibandi. „Sú sem ég talaði við í dag vann á saumastofunni þegar þetta byrjaði. Stundum voru slopparnir sendir út í bæ svo aðstoðarsaumakonur gætu sett á tölurnar og eitthvað svona. Það var bara allt brjálað,“ segir hún.

Selma segir að upprunalegur tilgangur sloppsins hafi verið að hlífa fínni fatnaði sem þá voru oftast kjólar eða pils og blússa. „Það var ekkert byrjað að vera í buxum þarna, það var kannski þegar hippatímabilið kikkaði inn sem þær þorðu því. Hnésokkarnir voru upp á hné en þegar þær voru að vinna þá rúlluðu þær þeim niður svo það væri ekki of mikill þrýstingur, en svo gátu þær bara skellt þeim upp þegar þær ætluðu að vera aðeins fínni,“ segir Selma að lokum og hlær.

Rætt var við Selmu Ragnarsdóttur í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Konurnar sem kjósa að vera heima óháð öllum farsóttum