Hvatti fólk til barneigna og ferðalaga um svefnherbergi

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar gerði lækkandi fæðingartíðni að umræðuefni á Alþingi í dag. Fæðingartíðni á Íslandi hafi aldrei verið lægri og hafi dregist saman sem nemur hálfu barni á aðeins tíu árum.

Þorbjörg ræddi þessi mál í umræðu um störf þingsins og sagði að fram til ársins 2010 hefði fæðingartíðni verið mest hér á landi af Evrópuríkjum en nú sé Ísland í sjötta sæti. Einnig vísaði hún til nýársávarps Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, sem hvatti Norðmenn til að eignast fleiri börn.

„Hún sagði að hún þyrfti sennilega ekki að útskýra hvernig þetta sé gert né ætlaði hún að gefa beina skipanir en henni var alvara því Norðmönnum fjölgar ekki nægilega. Hvert er áhyggjuefni hennar? Jú, velferðarsamfélagið, það stendur ekki undir sér ef fólk hættir eignast börn. Þeir sem eru á vinnumarkaði, þeir skapa tekjur og greiða skatta og styðja þannig við þá sem hafa skilað sínu verki á vinnumarkaði. Aldurspíramídi sem er á hvolfi getur ekki staðið undir velferðinni og á Íslandi fæðast í dag líka of fá börn til að halda jafnvæginu til lengri tíma litið. Kappsmál stjórnvalda á þess vegna að vera að stuðla að frekari barneignum og þess vegna er það beinlínis í hag okkar að reka fjölskylduvæna pólitík. Við þurfum nefnilega fleiri vinnandi hendur til lengri tíma litið og fleiri lítil börn munu til lengri tíma litið beinlínis bæta lífskjör okkar allra. Við eigum þess vegna að hvetja frjósemisgyðjuna til dáða og hvetja hana til að leggjast undir feld,“ sagði Þorbjörg Sigríður. 

Því ættu landsmenn að ferðast sem víðast innanhúss þegar ferðalög næstu vikna og mánaða eru skipulögð.

„Um þetta ættu landsmenn að hugsa núna þegar þeir ferðast innanhúss og innanlands í sumar að gleyma þá ekki ferðast kannski bara dálítið í svefnherberginu. Ömmum okkar öfum tókst að fjölga sér um 200.000 á tíu árum og með þetta í huga og það í huga að verja velferðina og efnahaginn með fleiri börnum ættum við líka að hlusta á Ernu, fyrir land, og þjóð, og fyrir ríkiskassann,“ sagði Þorbjörg í lok ræðu sinnar.