„Höfum ekki tekið mjög hart á þessu hérna í apríl“

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Þrátt fyrir að nagladekk séu bönnuð frá og með fimmtánda apríl ætlar lögreglan á Akureyri ekki að beita sektum fyrr en líða tekur á vorið. Langar raðir í dekkjaskipti heyra nú sögunni til.

Sektin 20 þúsund á hvert dekk

Veðurblíðan síðustu daga og hagstæð spá hefur valdið því að fólk flykkist nú á dekkjaverkstæði. Frá og með fimmtudeginum eru nagladekk bönnuð, samkvæmt lögum, nema að aðstæður gefi tilefni til annars. Lögreglan hefur þó alla jafn gefið ákveðinn slaka og beðið með sektir fram í maí. Sekt fyrir nagladekk er 20 þúsund krónur fyrir hvert neglt dekk. Heildarupphæðin geti því verið 80 þúsund krónur.

Verða fastari fyrir í maí

Aðalsteinn Júlíusson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að veðrið geti breyst fljótt. „Sko, við höfum ekki tekið mjög hart á þessu hérna í apríl, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Það er bara einfaldlega þannig að aðstæður hérna fyrir norðan hafa verið þannig oft að það hefur kannski éljað á okkur með stuttum fyrirvara og orðið hálka. En þegar það fer að vora svona meira þá reikna ég með að við verðum aðeins fastari fyrir,“ segir Aðalsteinn. 

„Það eru breyttir tímar"

Oftar en ekki myndast langar raðir við dekkjaverstæði á þessum tíma en það var ekki raunin í dag. Sveinn Bjarmar, þjónustustjóri Hölds segir að flestir séu nú farnir að bóka sér tíma á netinu. „Það eru breyttir tímar, sem betur fer. Þetta er náttúrulega miklu, miklu mun þægilegra að hafa þetta svona. Fólk bara pantar sér tíma, kemur á þessum tíma sem það er búið að panta, á þann tíma.“

Hefur ekki áhyggjur af því að þurfa að fara aftur á nagla

Heiðrún Jónsdóttir, íbúi á Akureyri pantaði sér tíma í netinu og fagnaði því mjög að þurfa ekki að bíða í röð. „Ég þarf ekkert að bíða og bara á minn tíma núna klukkan tvö og þeir koma eftir augnablik og ná í mig, ekkert vesen.“ 

En þú ert ekkert hrædd um að hér verði kafbylur í næstu viku og þú þurfir að skipta aftur?

„Ja þá verð ég bara heima.“