Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimshorfurnar í anda Tolstoys

Mynd: EPA / EPA FILE
Það er ekki lengra síðan en í október að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var einkar svartsýnn á framvinduna í hagkerfi heimsins. Covid-19 myndi valda þar varanlegum skaða og batinn yrði hægur og ójafn. Í nýjasta yfirliti AGS sem var kynnt á ársfundi sjóðsins nýlega, er tónninn annar: horfurnar mun betri en virtist, afleiðingarnar takmarkaðar. Sjaldgæft að sjóðurinn endurmeti stöðuna með þessum hætti.

Samtvinnun AGS og Tolstoys

Ljós og skuggar – það er orðinn reglulegur viðburður í alþjóða efnahagsmálum að heyra tilvitnun í rússneska rithöfundinn Leo Tolstoy. Kristalina Georgieva framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur nefnilega fyrir sið að vitna í rithöfundinn og þá einnig á blaðamannafundi nýlega, í tilefni af ársfundi sjóðsins. Tolstoy skýrði vel hvar hagkerfi heimsins væri nú statt.

Georgieva stytti reyndar tilvitnunina í þetta skiptið, sem í heild er að öll fjölbreytni lífsins, allt sem er heillandi við lífið og fegurð þess, er gert úr ljósi og skugga.

Meira ljós, minni skuggi

Eftir dökkar horfur er boðskapurinn nú meira ljós en skuggar: þegar á þessu ári verði heimsframleiðslan orðin meiri en 2019. Gangurinn á Íslandi reyndar hægari, en góðar horfur í helstu viðskiptalöndunum lofa góðu.

Horfurnar eru bjartari, sagði Georgieva, af því milljónir manna hafa notið góðs af bólusetningu og opinberar ráðstafanir gert sitt gagn.

Bólusetning og opinber efnahagsstuðningur jók ljósið og minnkaði skuggann

Já, skjótt skipast veður í hagloftinu – nánar tiltekið hefur sjóðurinn komist að allt annarri niðurstöðu sex mánuðum eftir fyrri spá um skuggalegar horfur. Og munurinn er þessi sem Georgieva nefndi: víðtæk bólusetning víða um lönd og svo efnahagsráðstafanir, þetta hvernig ríkisstjórnir hafa hlaupið undir bagga með fólki og fyrirtækjum.

Vöxtur í stað harðærisins sem fylgdi fjármálakreppunni 2008

Sá stuðningur fleytir hagkerfinu áfram, heldur fyrirtækjum gangandi og fólki í vinnu. Ýmsir hlutar hagkerfisins hafa síðan gert það nokkuð gott þrátt fyrir faraldurinn. Aukin netverslun til dæmis stutt þá framvindu. Einnig að þeir, sem hafa haldið vinnunni, hafi sparað töluvert þegar allt var lokað og ekki hægt að ferðast.

Vonin er því að þegar hjólin fara að snúast aftur, lífið kemst í betra horf, þá muni auknar skatttekjur hjálpa ríkjum að greiða niður veiruskuldirnar. Þá án þess að það verði gripið til hörku niðurskurðar, sem framlengdi víða harðærið eftir fjármálakreppuna 2008.

Vöxtur með sanngirni

Georgievu varð tíðrætt um sanngirni, að það væri öllum í hag að framvindan á næstu misserum einkenndist af sanngirni og þá einnig í dreifingu bóluefnis. Þar þyftu auðug lönd áfram að styrkja fátækari lönd í svokölluðu COVAX samstarfi, stutt af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðasamtökum og þjóðum.

Nú þurfa ríkisstjórnir að standa sig í bólusetningu

Eins og Georgieva hnykkti á: bólusetningarstefna er hagstefna og það fæst vart betri ávöxtun almannafjár en einmitt með því að styrkja bólusetningu alls staðar, jafnt heima sem heiman. Lyfjafyrirtæki hefðu þróað bóluefni á met tíma, nú væri það ríkisstjórna að standa sig í bólusetningu.

Sértækur vandi landa, sem eru háð ferðaþjónustu

Opinber stuðningur við fólk og fyrirtæki hefur skipt sköpum en það verður ærin áskorun að meta hvernig og hvenær eigi að draga úr þessum stuðningi. Og vissulega er staða einstakra landa mismundandi. Áhugavert að Georgieva tiltók vanda landa, sem eru mjög háð ferðaþjónustu.

Aftur, fyrir þessi lönd og önnur: bólusetning er besta leið allra landa út úr veiruvandanum, sagði Georgieva, gæti ekki endurtekið þetta nógsamlega.

Þörf að fjárfesta til framtíðar

Það er líka rík ástæða til að horfa til framtíðarinnar, fjárfesta fyrir framtíðina. Þar skiptir miklu að opinber fjárfesting fari í græna tækni af öllu tagi, stafræna tækni, menntun og heilbrigðismál.

Mikilvægi menntunar, ekki síst á veirutímum

Þjóðhagslegt mikilvægi menntunar verður seint ofmetið. Ekki síst á yfirstandandi veirutímum. The Resolution Foundation er bresk hugveita sem einbeitir sér að mið- og lágtekjuhópum. Í nýrri skýrslu veitunnar er hnykkt á hvað veiruaðgerðir hafi bitnað illa á ungu fólki.

Tæp sextíu prósent þeirra, sem hafa misst vinnuna undanfarin misseri eru á aldrinum 16 til 24 ára. Ungt fólk nýkomið úr námi, eða sem hafði hætt námi, á erfiðara með að finna vinnu en áður. Atvinnuleysi í þessum hópi hefur aukist úr fjórtán í átján prósent. Stofnunin hvetur því til aðgerða, sem styðja viðleitni ungs fólks til að finna vinnu. Eins til að halda áfram í eða fara í nám eða verkþjálfun.

Mikilvægasti veirulærdómurinn: enginn er eyland

Eins og Georgieva hnykkti á: Covid-19 heimsfaraldurinn sýnir hvað við erum öll háð hvert öðru, jafnt innan einstakra landa sem milli landa. – Og það er kannski mikilvægasti lærdómurinn af veiruhremmingunum.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir