Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimilin hafa staðið af sér faraldurinn

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi náð sögulegum hæðum í faraldrinum er staða íslenskra heimila mun betri en búist var við. Einstaklingum á vanskilaskrá fækkar og fasteignamarkaðurinn er í fullum blóma.

Í nýju riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, er farið yfir stöðu heimilanna og þróun á fasteignamarkaði. Þar segir að staða heimilanna sé um margt betri en vænta mátti við upphaf faraldursins. Þannig hafi einstaklingum á vanskilaskrá fækkað um 8 prósent á sama tíma og atvinnuleysi fór í sögulegar hæðir. Þegar mest lét voru 9 prósent einstaklingslána í frystingu hjá viðskiptabönkunum þremur en hlutfallið var komið niður í 2,2 prósent í febrúar. Túlkar Seðlabankinn það svo að áfallið af völdum faraldursins hafi ekki haft jafn mikil áhrif á heimilin og óttast var.

Ungt fólk þusti á fasteignamarkaðinn

Á sama tíma var blússandi gangur á fasteignamarkaði. Velta með íbúðarhúsnæði jókst um 42 prósent á síðari hluta ársins samanborið við sama tíma árið áður. Tvennt kemur þar til. Vextir hafa aldrei verið lægri og vegna sóttvarnaaðgerða fór minna fé í neyslu - og meira fé í sparnað. 

Ungt fólk lét mikið fyrir sér fara en hlutfall fyrstu kaupenda var 30 prósent á síðasta ári og hefur aldrei verið hærra. Þar sem hluti þeirra yfirgaf leigumarkaðinn, og ónotaðar Airbnb íbúðir flæddu inn á markaðinn, lækkaði leiguverð um sjö prósent.

Óverðtryggðu lánin taka yfir

Hegðun neytenda breyttist einnig. Á síðustu mánuðum hafa þrjú af hverjum fjórum nýteknum lánum verið óverðtryggð. Raunar skruppu verðtryggð lán saman um 148 milljarða í fyrra sem skýrist fyrst og fremst af því að fólk hefur endurfjármagnað verðtryggð lán með nýjum óverðtryggðum lánum. Óverðtryggð lán eru nú 42,4 prósent af heildarskuldum heimilanna en voru tæplega 30 prósent í byrjun árs 2020

Magnús Geir Eyjólfsson