„Hamingja er hjartastuðtæki“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Hamingja er hjartastuðtæki“

14.04.2021 - 20:19

Höfundar

Stundum dugir eitt lítið orð til að láta ýta við sér þegar það er þungskýjað yfir manni, segir Didda Jónsdóttir. Hún fjallar um hamingjuna í nýrri bók sem hún skrifaði þegar hún sjálf var þunglynd.

Hamingja er lítið kver eftir Diddu Jónsdóttur sem varð til upp úr pistli sem hún skrifaði eftir pöntun frá dagblaðinu Stundinni. „Ég sem sagt ræpaði þessu úr mér og sendi henni, hélt ég slyppi létt, en þá hafði Guðrún Sigfúsdóttir hjá Forlaginu samband. Það er ekki hægt að segja nei við hana. Hún vildi endilega fá að gefa þetta út og ég hef einhvern veginn svo góða reynslu af henni Guðrúnu, hún hefur alltaf verið ljósmóðirin hjá mér þegar ég hef gefið út þessar fáu bækur mínar. Mér fannst ég ekki geta sagt nei þannig að ég lét vaða.“

Diddu leið hins vegar sjálfri ekki vel þegar hún settist niður til að skrifa um hamingjuna sem felst í hinu hversdagslega og venjubundna í lífinu. „Ég var sjálf fremur þunglynd og ekkert endilega á besta stað í heimi,“ segir hún. En skrifin reyndust hið besta meðal. „Mér leið illa þegar ég byrjaði og það hjálpaði mér heilmikið að minna mig á það að það er í þessu litla. Það er í litla göngutúrnum eða í nærveru við góða manneskju. Hamingja er meira að segja myrkur þegar maður er þreyttur á ljósinu og ljós þegar maður er þreyttur á myrkrinu. Hamingjan snýr sér alltaf einhvern veginn öndvert.“

Mynd með færslu

„Hvað er eiginlega hamingja fyrir mig?“ spyr hún. „Til dæmis eins og sagt er í bókinni, „hamingja er hjólastóll“, það er bara af því að ég þekki fólk sem þarf að vera í hjólastól og líf þeirra er svo miklu betra því að það er til hjólastóll. Síðan er það „hamingja er hjartastuðtæki“, við vitum öll sem þekkjum til einhvers sem hefur þurft á því að halda hversu mikil hamingja fylgir því. Þannig að hamingja er ýmislegt.“

Textarnir eru ekki ljóð, segir Didda, heldur romsa. „Þetta átti ekki að vera flóknari en það. Þetta er eiginlega langt póstkort. Stundum þegar maður er þungur þá þarf maður ekki endilega flóknu orðin eða flóknar setningar til þess að láta ýta við sér. Það þarf kannski bara eitt orð.“

Diddu líður betur núna en þegar hún byrjaði að skrifa bókina. „Ég er alveg ódrepandi.“ Hún hefur fengist við margt í gegnum tíðina, tónlist, ljóðlist, leikið í kvikmyndum, verið sundlaugarvörður og í öskunni. „Ég mun örugglega halda því áfram, að vera upptekin af því að prófa eitthvað sem ég hef ekki prófað áður. Ég geri hvað sem er. Svo er það þetta, að segja ekki nei við öllu, heldur láta hræða sig svolítið og ýta sér út.“

Egill Helgason ræddi við Diddu í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Segi oft við fólk: Elvis sé með þér“

Tónlist

Didda syngur „Til hvers er ég?“