Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Græni covid-passinn jafnvel í næsta mánuði

Mynd: TourismReview / TourismReview
Vonir standa til um að Ísland taki þátt í tilraunaverkefni með að nota samræmt covid-bólusetningarvottorð á Evrópska efnahagssvæðinu. Sviðsstjóri hjá Landlækni segir að ekki séu dæmi um að framvísað hafi verið fölsuðum vottorðum á landamærunum. Stefnt er að því að samræmdu vottorðin verði komin í almenna notkun í seinni hluta júní.

Frumskógur vottorða

Ljóst er að það verður gott að vera með samræmt vottorð upp á vasann þegar ferðalög milli landa aukast, hvenær svo sem það verður. Nú framvísa ferðamenn margvíslegum vottorðum frá sínum heimalöndum. Ingi Steinar Ingason, sviðstjóri miðstöðvar rafrænna lausna hjá embætti Landlæknis,  tekur undir að líkja megi ástandinu við frumskóg.
  
„Já, það verður að viðurkennast. Okkar landamæraverðir eru vanir að taka á móti fólki með alls konar pappíra. Þeir eru ekki síður að lesa í einstaklinginn en í vottorðið. Við höfum ekki fundið nein dæmi enn þá þar sem staðfest hefur verið að eitthvað hafi verið beinlínis falsað. Ekki mér vitandi alla vega,“ segir Ingi Steinar.

Hann segir að nú sé unnið að því að koma upp samræmdu vottorðakerfi, græna vottorðinu, innan Evrópska efnahagssvæðisins. Til stendur að það verði komið í gagnið seinni hluta júní. Hann segir að nokkuð flókið sé að koma þessu á vegna þess að staðan er ólík milli landa. Í meginatriðum séu tvær hliðar á þessu. Annars vegar sé útgáfan á vottorðum. Staðan hér sé góð hvað það varði.

„Á einum stað getum við í raun gefið út öll þessi vottorð hjá Landlækni. Sama hvort það er um staðfest smit, mótefni eða um bólusetningu. Í mörgum öðrum löndum eru þetta kannski einstakar heilsugæslustöðvar eða spítalar að bólusetja og vottunin er þá gefin út hjá þeim. Þetta verður nokkuð flóknara eftir því sem löndin  eru stærri og heilbrigðiskerfin flóknari. Hin hliðin er að við getum tekið á móti fólki sem er með þessi vottorð og staðfest þau nokkuð fljótt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Ingi Steinar Ingason

Flýti fyrir og einfaldi ferðalög

Samræmda vottorðið sem Evrópusambandið er með í smíðum á að innihalda upplýsingar um smit og skimanir auk upplýsinga um að viðkomandi sé bólusettur að fullu. Vottorðin verða í rafrænu formi með strikamerki, QR- kóða eða á pappír og verða gefin út einstaklingum að kostnaðarlausu. En hver er tilgangurinn með útgáfu þessara vottorða? Ingi Steinar segir að hann geti verið mismunandi eftir löndum.

„Við erum fyrst og fremst að horfa til þess að þessi samræmdu vottorð flýti fyrir og einfaldi öll ferðalög milli landa. Bæði fyrir Íslendinga og ferðamenn sem eru að koma hingað.“

Innan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er unnið að því að gefa út sameiginlegt vottorð fyrir allan heiminn sem staðfestir að viðkomandi er fullbólusettur. Ingi Steinar segir að svipuð vinna sé í gangi í Bandaríkjunum, í Asíu og fleiri stöðum. Markmiðið hjá Evrópusambandinu sé að tengja þessi kerfi saman.

Tilraunaverkefni?

En hvenær er áætlað að græni covid-passinn verði gefinn út í Evrópu? Ingi Steinar segir að vonast sé til að Ísland taki þátt í tilraunaverkefni.

„Við erum að vonast til þess að geta troðið okkur inn í tilraunaverkefni sem er þá stefnt á að verði í næsta mánuði. Í síðasta lagi held ég að við séum að tala um að þetta verði komið í gagnið hjá okkur í lok júní,“ segir Ingi Steinar.