Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fólk er almennt rólegt yfir að dvelja í einangrun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Enn er þétt setinn bekkurinn í sóttvarnahúsum. Hátt í 300 eru á Fosshótel Reykjavík og á Lind eru 42 þar af 27 í einangrun með COVID-19. Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsanna segir að fólki líði almennt ágætlega.

„Einkennin koma og fara þannig að fólk getur verið þokkalegt í dag en mun verra á morgun. Við fylgjumst vel með þeim þannig að það er þess vegna það er hjá okkur. Þetta er fólk sem þarf eftirlit, þannig að ef þau þurfa að leggjast eru þau send til okkar.“

Farsóttarhúsið Lind er fyrsta vörn Landspítalans fyrir það fólk sem ella þyrfti að fara þangað, að sögn Gylfa. Húsið er líka skammt frá sjúkrahúsinu þurfi að flytja sjúklinga þangað í skyndingu.

Fólk dvelur nú tvær vikur á farsóttarhúsi í stað tíu dag, þar sem breska afbrigðið kallar á lengri dvöl en önnur afbrigði. Gylfi segir að dvölin sé fæstum mjög þungbær þótt það sé misjafnt. Það geti þó verið erfitt að liggja inni yfir stórhátíðir, jólin hafi verið erfið en páskarnir ekki eins. 

„Flest sem eru veik eru róleg yfir að þurfa að vera í einangrun. Þau átta sig alveg á nauðsyn þess. Stundum kemur upp að fólk sem er veikt finnur engin einkenni. Þá getur verið erfitt að sætta sig við að missa af afmælum barna sinna, giftingum eða hugsanlega jarðarförum.“ 

Gylfi kveðst vonglaður að ná að tæma nokkur herbergi á sóttvarnahótelinu næstu daga. Tugir einstaklinga fari í sýnatöku dag hvern en færri hafa verið koma með hverri flugvél til landsins en gert var ráð fyrir. 

Gestir séu að megninu til útlendingar, margir íslenskir útlendingar eins og hann orðar það, sem búa hér og starfa og hafa gert til margra ára. Þau hafi farið til útlanda að heimsækja fjölskylduna af ýmsum ástæðum.

Miserfitt sé að eiga við útveru en fólk á kost á henni í samvinnu við starfsfólk sóttkvíarhótelsins. „Panta þarf tíma fyrir útivist ef engin vél er að koma eða fólk að útskrifast. Það hefur gengið ágætlega en ítreka þarf við suma að útiveran þýði ekki ferð í verslun eða að hitta vini eða ættingja.“ 

„Fólk velur að koma til okkar og þá er dvölin mun auðveldari, en auðvitað eiga einhverjir erfitt með inniveru. Ég tala nú ekki um ef einhverjir sjúkdómar eru að baki.“ Góður aðgangur sé að læknum og hjúkrunarfólki sem aðstoðar eftir þörfum. 

„Þetta sleppur enn til, en það hefur verið að fjölga aðeins á Egilsstöðum líka.“ Þar eru nú um tíu farþegar úr Norrænu í sóttkví. Þétt er setinn bekkurinn í sóttvarnahúsum. Enn þá dugar þó Fosshótel Reykjavík.