Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Engar friðarviðræður fyrr en Bandaríkjaher fer úr landi

epa09126247 Smoke rises from tankers after gas tankers caught fire in Kamarkolagh district in Herat, Afghanistan, 10 April 2021. According to local officials, one person was killed in this incident several oil tankers caught fire causing tens of thousands of dollars in damage.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjaforseti ætlar að draga allt herlið frá Afganistan fyrir 11. september næstkomandi. Talibanar ætla ekki að taka þátt í friðarviðræðum fyrr en allt erlent herlið hefur yfirgefið landið.

20 ár frá árásinni á Tvíburaturnana

Bandarískir fjölmiðlar hafa eftir ónafngreindum heimildarmönnum úr stjórnkerfinu að Joe Biden hyggist kalla það sem eftir er af bandarísku herliði í Afganistan þaðan fyrir 11. september á þessu ári. Þann dag verða 20 ár liðin frá árásunum á Tvíburaturnana í New York, sem leiddi til loftárása og innrásar Bandaríkjahers í Afganistan rúmum þremur vikum síðar.

Rúmlega fjögurra mánaða seinkun

Um 2.500 bandarískir hermenn eru enn í Afganistan. Forveri Bidens, Donald Trump, hafði áður tilkynnt að herliðið færi á brott rúmum fjórum mánuðum fyrr, eða fyrir fyrsta maí næstkomandi, eftir samninga við talibana.

Skömmu eftir að fréttir bárust af þessari seinkun tilkynntu talibanar að þeir ætli ekki að senda neina fulltrúa á ráðstefnur eða viðræður um framtíðarmálefni Afganistans svo lengi sem erlendir herir eru þar enn .

Fyrirhuguð friðarráðstefna í uppnámi

„Þar til allir erlendir herir hafa dregið lið sitt út úr föðurlandi okkar að fullu, munum við ekki taka þátt í neinum ráðstefnum þar sem ætlunin er að taka ákvarðanir um framtíð Afganistans," skrifaði Mohammad Naeem, talsmaður talibana á Twitter.

Fyrirhuguð friðarráðstefna sem til stendur að halda í Istanbúl dagana 24. apríl til 4. maí í því augnamiði að blása nýju lífi í friðarviðræður talibana og Kabúlstjórnarinnar, er þar með í uppnámi.