Bjartsýni þrátt fyrir óvissu með mörg bóluefni

Mynd: EPA-EFE / EPA
Dönsk stjórnvöld ákváðu í dag að hætta alveg að nota bóluefni AstraZeneca. Þá ríkir óvissa á heimsvísu um bóluefni Janssen. Sóttvarnalæknir telur líklegt að bóluefni Janssen fái grænt ljós og vonar að það takist að gefa að minnsta kosti 200 þúsund manns bóluefni fyrir mitt sumar.

AstraZeneca

Óvissan í kringum bóluefni AstraZeneca og Janssen fer vaxandi en bóluefnin tvö byggja á sömu veiruferjutækni og bæði hafa þau, í örfáum tilvikum, valdið lífshættulegum blóðtöppum, einkum hjá konum. Vegna þessa tóku dönsk stjórnvöld í dag ákvörðun um að hætta alfarið notkun bóluefnis AstraZeneca þar í landi.  

„Það var meðal annars andlát sextugrar konu hér í Danmörku sem varð þess valdandi að við tókum þessa ákvörðun. Hugur minn er enn hjá aðstandendum hennar,“ sagði Søren Brostrøm, landlæknir Danmerkur, á blaðamannafundi í hádeginu í dag. 

Reyndar varð smá uppþot á blaðamannafundinum í Kaupmannahöfn í dag þegar leið yfir Tönju Lund Erichsen, frá dönsku lyfjastofnuninni, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Hún mun þó vera búin að ná sér að fullu.

Um 150 þúsund Danir hafa þegar fengið fyrsta skammtinn af bóluefni AstraZeneca, en þeim verður nú boðin bólusetning með öðru efni. 

Í Danmörku hefur eitt af hverjum 40 þúsund fengið blóðtappa, í Noregi er hlutfallið 1 á móti 26 þúsund en Lyfjastofnun Evrópu segir það eiga við um eitt af hverjum 300 þúsund sem fá efnið. Þess ber að geta að fá tilvik eru á bak við þessar tölur.

Síðdegis í dag sendi Lyfjastofnun Evrópu frá sér tilkynningu um að nýtt mat verði gert á bóluefni AstraZeneca og horft til stærra samhengis við ákvörðun á áframhaldandi notkun lyfsins. 

Sóttvarnalæknir telur ekki tilefni, að sinni, til að endurskoða notkun AstraZeneca hér á grundvelli þessara tíðinda frá Danmörku. Ekki er útilokað að stjórnvöld hér beiti sér fyrir því að fá þá skammta af AstraZeneca sem dönsk stjórnvöld hyggjast ekki nýta. 

Janssen

Lyfjarisinn Johnson og Johnson ákvað svo í gær að stöðva dreifingu á Janssen-bóluefni sínu í Evrópu. 

Gögn frá Bandaríkjunum benda til þess að líkur á að fá alvarlegar aukaverkanir af efninu séu einn á móti milljón. Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu, rannsakar nú sjaldgæf blóðtappatilvik og hyggst gefa út tilmæli um notkun efnisins innan viku. 

Eldsnemma í morgun komu 2640 skammtar af bóluefni Janssen til landsins.  

„Það er komið til okkar og komið inn í fyrsti og við bara geymum það þar til við fáum frekari fyrirmæli frá sóttvarnalækni um hver notkunin verður og hvernig,“ segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica. 

Öruggt er að geyma efnið í einhverja mánuði. Í heild á Ísland að fá 235 þúsund skammta af þessu bóluefni. Í raun eru þetta ígildi tvöfalt fleiri skammta, því ólíkt öðrum bóluefnum þarf bara einn skammt af bóluefni Janssen. 

„Ef engar aðrar niðurstöður fást og engar aðrar aukaverkanir get ég ekki séð hver fyrirstaðan ætti að vera fyrir að nota bóluefnið,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir. 

Pfizer

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tilkynnti í morgun að bóluefnaframleiðandinn Pfizer myndi afhenda um 50 milljónum fleiri bóluefnaskammta til Evrópuþjóða en áður hafði verið reiknað með á öðrum ársfjórðungi. 

„Þessa fimmtíu milljón skammta átti upphaflega að afhenda á fjórða fjórðungi árisins en nú verða þeir fáanlegir fyrir mitt ár, sem sagt nú þegar. Þar með nær heildarfjöli skammta frá BioNTeck Pfizer 250 milljónum á öðrum ársfjórðungi,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB. 

Þetta þýðir að Ísland mun fá samtals rúmlega 192 þúsund bóluefnaskammta frá Pfizer fyrir lok júní, tæplega 40 þúsund fleiri en lagt var upp með. Af Moderna hafa komið tæplega 16 þúsund skammtar, en samið hefur verið um tæplega 300 þúsund, það er framleitt með sömu tækni og Pfizer, mRNA-tækni. 

Skammtarnir sem er von á frá Pfizer og Moderna duga til að bólusetja 140 þúsund manns fyrir lok júní en sóttvarnalæknir vonar að það verði yfir 200 þúsund.

„Ef allt gengur eftir en svo er náttúrulega spurning hvað verður um þessi bóluefni eins og frá Janssen og hvað gerist með AstraZeneca  bóluefnið, það eru svona smá óvissuþættir í þessu,“ segir Þórólfur.